Rúmlega 2,2 milljarðar skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni hafa verið gefnir á heimsvísu. Það eru 29 skammtar á hverjar 100 manneskjur en mikill munur er á löndum og heimsálfum. Þetta kemur fram í grein hjá New York Times.

Norður-Ameríka leiðir listann en þar er búið að gefa 64 skammta á hverjar 100 manneskjur. Í Afríku hafa aðeins verið gefnir 2.9 skammtar á hverjar 100 manneskjur. Í flestum tilvikum þarf tvo skammta til að ná fullri virkni bóluefna.

Skjáskot/The New York Times

85% allra skammta hafa verið gefnir í löndum með þjóðartekjur (GNI) sem eru háar eða yfir meðallagi og aðeins 0.3% í löndum með lágar þjóðartekjur.

Stjórnendur COVAX, sam­starfs­verk­efni Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), CEPI og Gavi, sem í grunninn snýst um að tryggja bólu­efni fyrir alla, tilkynntu að þeim hafi tekist að tryggja tvo milljarða skammta af bóluefni. Meira en helmingur af þeim á að fara til landa með lágar eða meðal þjóðartekjur.

Bandaríkin tóku ekki þátt í COVAX þegar verkefnið fór af stað í febrúar en hyggjast nú undir stjórn Biden kaupa 500 milljónir skammta af bóluefni Pfizer/Biontech og gefa 92 lágtekjulöndum og Afríkusambandinu.

G7 ríkin, stærstu efnahagsveldi heims, halda leiðtogafund þessa helgi. Fundaskrá gefur til kynna að ríkin stefni á að gefa einn milljarð skammta fyrir lok ársins til að vinna gegn kórónuveirunni á heimsvísu.