Mikil andstaða er við blóðmerahald hér á landi samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðannakönnunar Prósents. Aðeins 15 prósent segjast vera frekar eða mjög hlynnt því að blóðmerahald sé leyfilegt á Íslandi en 66 prósent eru andvíg því.

Andstaða við blóðmerahald er mun meiri meðal kvenna en karla. Aðeins sex prósent kvenna eru hlynntar því að blóðmerahald sé leyft en stuðningur karla við þennan iðnað er 24 prósent.

Grafík: Edda Karitas

Þá er meirihluti kjósenda allra flokka andvígur blóðmerahaldi. Stuðningur er þó mestur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, eða 28 prósent. Þá er fjórðungur Framsóknarmanna og kjósenda Flokks fólksins hlynntur blóðmerahaldi.

Grafík: Edda Karitas

Athygli vekur að meiri stuðningur er við blóðmerahald meðal ungu kynslóðarinnar en 23 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára segist vera hlynnt því að blóðmerahald sé leyfilegt, samanborið við 11 prósenta stuðning við þennan iðnað í elsta hópnum, þeirra sem eru 65 ára og eldri.

Meiri andstaða er við iðnaðinn á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi. Tæp sextíu prósent landsbyggðarbúa eru andvíg blóðmerahaldi samanborið við sjötíu prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Grafík: Edda Karitas

Umfjöllun um blóðtöku úr fylfullum merum komst í hámæli í lok nóvember þegar svissnesku dýrasamtökin Animal Welfare Foundation, AWF, ljóstruðu upp um dýraníð á blóðtökubæjum hér á landi. Skýrsla þeirra og heimildarmynd sýndi fram á að dýralæknar, sem starfa samkvæmt leyfi Matvælastofnunar, fylgdust aðgerðalausir með hundum og mönnum níðast á blóðmerum.

Aðeins fjögur lönd heiminum heimila blóðmerahald í þeim tilgangi að búa til hormón sem sprautað er í gyltur til að auka frjósemi þeirra, en löndin eru Argentína, Kína, Ísland og Úrúgvæ.

Svandís nýtur mikils stuðnings kjósenda VG vilji hún banna blóðmerahald.
Fréttablaðið/Valli

Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram frumvarp í annað sinn til að banna blóðmerahald og Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað starfshóp til að skoða starfsemina.

Matvælastofnun rannsakar meðal annars dýraníðið og Ísteka hefur rift samningum við bændur sem komu fram í heimildarmyndinni.

Könnun Prósents var framkvæmd frá 1. – 10. Desember. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 2.300 einstaklingar á aldrinum átján ára og eldri. Svarendur voru 1.134 eða 49,3 prósent.