Nærri tveir þriðju aðspurðra, 64,3 prósent, telja hvalveiðar skaða orðspor Íslands samkvæmt nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. 29,6 prósent telja að þær hafi ekki áhrif og 6,1 prósent að þær hafi góð áhrif.

33,2 prósent sögðust vera hlynnt veiðum á langreyðum, sem eru nú að fara að hefjast á nýjan leik, og 31,8 prósent telja það skynsamlegt að stunda hvalveiðar. 35 prósent eru hins vegar á móti veiðunum og 44,3 prósent telja þær óskynsamlegar.

Rétt rúmlega meirihluti svarenda, 52,5 prósent, telja hvalveiðar hafa lítilvægan ávinning fyrir íslensk efnahagslíf en aðeins 21 prósent telja hvalveiðar mikilvægar fyrir efnahaginn.

Umtalsverður munur er á svörum eftir bæði kynjum og aldri. 48 prósent karla eru hlynnt hvalveiðum en aðeins 17 prósent kvenna. Stuðningurinn eykst svo með hækkandi aldri. 45 prósent 60 ára og eldri styðja veiðarnar en aðeins 15,5 prósent undir þrítugu. Tiltölulega lítill munur er á svörum eftir landsvæðum, en þó er stuðningur við hvalveiðar aðeins meiri á landsbyggðinni.

Nokkur munur er á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum. Mestur er stuðningur hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks, 63,4 prósent, og Miðflokks, 60,1 prósent. 47 prósent Framsóknarmanna styðja hvalveiðar og 45,5 prósent kjósenda Flokks fólksins. Hjá Viðreisn er stuðningurinn 26,9 prósent, 22,1 hjá Sósíalistum, 17,3 hjá Vinstri grænum, 12,8 hjá Samfylkingu og 11,2 prósent hjá Pírötum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir könnunina sína að viðhorf Íslendinga sé að breytast. Ekki lengur þurfi að verja hvalveiðar með kjafti og klóm. Hvalaskoðun sé farin að skila miklum ávinningi sem ein af höfuðafþreyingum ferðaþjónustu.

„Í hvert sinn sem við förum út að veiða þessar ótrúlegur skepnur eyðileggur það fyrir þeim sem eru að selja þá upplifun að skoða hvali og skemmir orðsporið,“ segir Jóhannes. „Við vitum það, út frá könnunum og öðrum gögnum, að hvalveiðar Íslendinga hafa eyðilagt ótrúlega mikið ferðaþjónustunni.“

Jóhannes segir hvalaskoðun gegna lykilhlutverki á nokkrum landsvæðum og eigi mikið inni. „Við höfum mörg augljós og skrásett dæmi um að fólk í okkar helstu markaðslöndum, Mið Evrópu og Bandaríkjunum, sniðgangi bæði ferðir til Íslands og íslenskar vörur út af hvalveiðum.“

Könnun var framkvæmd 19. til 27. maí í Þjóðgátt Maskínu. Svarendur voru 957 talsins.

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar