Ný könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið sýnir áfram afgerandi stuðning við Guðna Th. Jóhannesson, sitjandi forseta, í forsetakosningunum næstkomandi laugardag.
Alls styðja um 92 prósent Guðna en um átta prósent mótfram-bjóðandann Guðmund Franklín Jónsson. Er það í samræmi við aðrar kannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu.
Tekur ekki mark á könnunum
Guðmundur Franklín kippir sér ekki upp við að heyra niðurstöður könnunarinnar. „Ég tek voða lítið mark á skoðanakönnunum á Íslandi því ég veit hvernig þær eru unnar, ég þekki það,“ segir Guðmundur.
„Allt getur gerst á viku og Guðni er kominn í sjö mílna skóna.“ Vildi hann ekki ræða þetta frekar þar sem hann væri að fara að sinna kjósendum sínum.
Einnig var spurt í könnuninni hversu líklegt eða ólíklegt fólk væri til þess að kjósa. Rúm 72 prósent segjast alveg örugglega ætla að kjósa, rúm fjórtán prósent telja það mjög líklegt og 5,5 prósent frekar líklegt. Þannig telja 92 prósent svarenda líklegt eða öruggt að þeir kjósi.
Ánægjulegt ef þátttaka verður góð
Rúm fimm prósent svarenda telja annaðhvort ólíklegt eða alveg öruggt að þau muni ekki kjósa og tæp þrjú prósent hvorki líklegt né ólíklegt. „Miðað við niðurstöður þessarar könnunar standa vonir til þess að kosningaþátttaka verði góð sem er ánægjulegt. Mér finnst það mikilvægt að allir sem hafa á því tök taki þátt og nýti kosningaréttinn,“ segir Guðni um þær niðurstöður.
Í gær höfðu rúmlega tuttugu þúsund manns kosið utan kjörfundar sem eru töluvert fleiri en höfðu kosið á sama tíma í síðustu forsetakosningum.
Stuðningsfólk Guðna er ákveðnara í því að kjósa heldur en stuðningsfólk Guðmundar. Þannig segja 95 prósent þeirra sem styðja Guðna örugglega eða líklega ætla að kjósa en 85 prósent stuðningsfólks Guðmundar.
Karlar eru líklegri en konur til að styðja Guðmund Franklín. Alls ætla 87 prósent karla að kjósa Guðna en 13 prósent Guðmund. Guðni nýtur stuðnings 97 prósenta kvenna en Guðmundur 3 prósenta.
Annars sækir Guðmundur Franklín helst stuðning sinn til kjósenda Miðflokksins og Flokks fólksins. Um 48 prósent stuðningsfólks Miðflokksins hyggjast kjósa hann og 28 prósent stuðningsfólks Flokks fólksins. Aðeins eitt prósent kjósenda Viðreisnar og þrjú prósent Pírata, Samfylkingarfólks og Vinstri grænna ætla að kjósa Guðmund.
Guðni nýtur meiri stuðnings hjá yngri kjósendahópum en þeim eldri. Þannig styðja 97 prósent á aldrinum 18-24 ára Guðna en 88 prósent þeirra sem eru 65 ára eða eldri.
Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og var gerð 15. til 18. júní síðastliðinn. Í úrtaki voru 2.500 einstaklingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 50,5 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.