Mál mæðgnanna í schäfer-hundaræktinni Gjósku gegn Hundaræktarfélagi Íslands (HRFÍ) er aftur komið fyrir dómstóla. Mæðgunum Örnu Rúnarsdóttur og Rúnu Helgadóttur var vísað úr félaginu og voru sviptar ættbókarskírteini eftir að siðanefnd úrskurðaði að ættbókarskráningar hefðu verið falsaðar sumarið 2021.

Máli gegn félaginu sjálfu var vísað frá í janúar síðastliðnum í héraði og sá dómur staðfestur mánuði seinna þar sem ekki þótti afgerandi hvort verið væri að stefna félaginu sjálfu eða stjórn þess. Nú er þeim einstaklingum sem sitja í stjórninni stefnt, og félaginu til vara, en aftur er farið fram á frávísun.

Óhætt er að segja að hiti hafi verið í málflutningi frávísunarmálsins sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Vakti það eftirtekt hversu hvöss samskipti lögmanna voru áður en dómari gekk inn í salinn. Vanalega spjalla lögmenn á kumpánlegum nótum hver við annan utan réttar þó að þeir takist á í málflutningi.

Mestur hiti var í Jóni Egilssyni, lögmanni mæðgnanna, og bað dómari hann í nokkur skipti að einskorða málflutning sinn við frávísunina sjálfa. En Jón lagði áherslu á hversu mikil áhrif málið hefði haft á mæðgurnar og hvaða þýðingu það hefði fyrir ræktendur að vera í félaginu.

„Stefndu fóru í fjölmiðla og sögðu mæðgurnar mestu svindlara í hundarækt á Íslandi,“ sagði hann, en Daníel Örn Hinriksson, einn hinn stefndu, hefur talað máli stjórnarinnar í fjölmiðlum vegna málsins.

Jón sagði að sem hundaræktandi í fullu starfi gæti Arna ekki stundað atvinnu sína í dag. Ræktendur yrðu að vera meðlimir í HRFÍ til að geta tekið þátt í sýningum. Bæði æran og fjármunir væru undir.

Sagði Jón ástæðuna fyrir málinu öllu þá að Rúna hefði verið starfsmaður HRFÍ en „komist upp á kant við liðið“. Sagði hann að Rúna hefði meðal annars fundið að því að ræktendur tengdir stjórn félagsins væru að klippa rófur af hundum til fegrunar. Það mál sé nú til meðferðar hjá Matvælastofnun.

„Fullyrðingar, fullyrðingar og fullyrðingar en engin gögn sem styðja þær,“ sagði Jónas Friðrik Jónsson, lögmaður HRFÍ og stjórnarmeðlima. Hann fer fram á að málinu verði vísað frá og mæðgurnar greiði málskostnað, en í fyrra málinu var málskostnaður felldur niður.

Sagði hann slíka ágalla á málatilbúnaðinum að ekki væri hægt að grípa til varna. Meðal annars væri dómkrafan ódómtæk því þar væri samofin krafa um ógildingu bráðabirgða- og fullnaðarúrskurðar siðanefndarinnar. Þá væri krafan í heild sinni vanreifuð, í henni væru sífelldar endurtekningar og vísanir í hluti sem skipta ekki máli. Ekki væru lögð fram nein sönnunargögn og ekki reifað hvers vegna einstaklingum sé stefnt, en meðlimir í stjórn taki aðeins ákvarðanir í nafni stjórnar.

Jónas Fr. Jónsson lögmaður HRFÍ.
Mynd/GVA

Um úrskurð siðanefndar sagði Jónas hann afar viðamikinn og brotið metið alvarlegt. Röng ræktunartík hefði verið skráð, rangar upplýsingar gefnar til HRFÍ meðal annars um dauðan hund og meiðandi ummæli látin falla um framkvæmdastjóra HRFÍ.

Jón hafnaði þessu og sagði öll atriði stefnunnar studd gögnum. Sagði hann það dónaskap að halda öðru fram. Engin gögn hefðu hins vegar fylgt kæru HRFÍ sem hefði verið upphafið að málinu. Þá væri úrskurður siðanefndar rangur og mæðgurnar hefðu enga ástæðu til að nota rangar mæður í got. Allar þeirra tíkur væru hreinræktaðar og ættbókarfærðar.