Af þeim 1336 ökutækjum sem keyrðu Reykjanesbrautina í gegnum Garðabæ á einni klukkustund fyrir hádegi í dag keyrðu 13 prósent of hratt. Á vefi lögreglu kemur fram að meðalhraði hinna brotlegu hafi verið 94km/klst þar sem hámarkshraði sé 80km/klst. Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, segir lögregluna standa fólk að hraðakstri á hverjum degi, alla daga ársins.

Hærra brothlutfall í íbúðarhverfum

Gunnar segir brothlutfall hafa verið svipað á Reykjanesbrautinni í undanförnum hraðamælingum en að oft sé töluvert hærra brothlutfall að finna inni í íbúðahverfum. „Við höfum séð mun hærri tölur en þetta áður“ bætir hann við.

Árið 2018 voru hraðaakstursbrot rúmlega 61 þúsund á landsvísu sem jafngildir 78 prósent allra umferðarlagabrota. Gunnar viðurkenndi að hann vissi ekki hvernig hann gæti fengið fólk til að hætta að keyra of hratt „Ef ég viss það þá myndi ég löngu vera búin að koma því á framfæri.“