Gífurlegur fjöldi sýna er nú tekinn innanlands vegna COVID-19 og fer stór skerfur þeirra í gegnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mikill fjöldi fólks hefur undanfarna daga safnast saman í langri röð við Suðurlandsbraut þar sem sýnatökurnar fara fram.

Dagurinn í dag, föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi, var engin undantekning og náði röðin langt niður í Ármúla þar sem fólk beið eftir að komast að. Veðrið var þó með sýnatökugestum í liði að þessu sinni og mátti sjá fólk á stuttermabolum í blíðunni.

„Þetta er allt á sama stað. Það hefur svo sem verið allt í lagi en það er verið að skoða það að hafa þetta einhvern veginn öðruvísi, þannig það sé skilið betur að,“ segir Óskar í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er ekki komið langt í hugsun en ef þetta heldur áfram þá er kannski skynsamlegt að gera það.“

500 til þúsund bólusettir daglega

Það eru þó ekki aðeins sýnatökur sem eru framkvæmdar á Suðurlandsbraut en einnig er verið að bólusetja nokkurn fjölda fólks, þar á meðal barnshafandi konur sem nýlega var mælt með að færu í bólusetningu.

„Svo eru þetta kennararnir og skólastarfsfólk, við ætlum að ná þeim áður en skólarnir byrja svo allir séu búin að fá aukaskammt eftir Janssen,“ segir Óskar. „Við bólusetjum alveg 500 til þúsund manns á dag eftir því hver þörfin er þar til við tökum stóru dagana.“

Aðspurður segir Óskar að það hafi gengið vel að manna bæði sýnatökur og bólusetningar. „Við erum með mikið af tímavinnufólki, það er alls konar fólk sem er hætt að vinna eða er að vinna annars staðar og býðst til þess að koma,“ segir hann enn fremur.

Hér fyrir neðan má finna myndir úr röðinni í dag.

Fréttablaðið/Birna
Fréttablaðið/Birna
Fréttablaðið/Birna
Fréttablaðið/Birna
Fréttablaðið/Birna
Fréttablaðið/Birna
Fréttablaðið/Birna