Mikill eldur kom upp í ein­býlis­húsi fyrir utan Stokks­eyri eftir há­degi í dag. Bruna­varnir Ár­nes­sýslu eru á staðnum og vinna að því að slökkva eldinn.


Til­kynning um brunann barst klukkan 13:34 í dag og fór sveit bruna­varnanna frá Sel­fossi á staðinn á­samt dælu­bíl, körfu­bíl og tank­bíl. Þetta stað­festir Pétur Péturs­son slökkvi­liðs­stjóri í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir að fljót­lega hafi annar dælu­bíll verið kallaður á svæðið frá Hvera­gerði.


Þegar slökkvi­lið fór af stað var ekki vitað hvort ein­hver væri inni í húsinu en þegar komið var á staðinn höfðu slökkvi­liðs­menn stað­fest að enginn væri þar inni. Enginn er með fasta bú­setu í því en það var þó notað af og til.


Pétur segist nokkuð viss um að al­tjón hafi orðið á húsinu, sem er tveggja hæða timbur­hús, klætt með báru­járni. Hann segir að húsið hafi verið ein­angrað með hálmi og sagi og því afar eld­fimt. Slíkar byggingar myndu aldrei vera leyfðar í dag.

Reykkafarar voru kallaðir til baka eftir að milliþak hrundi í húsinu þegar þeir voru í þann mund að fara inn.
Fréttablaðið/aðsend


„Því var mikill hiti í húsinu og það brann hratt,“ segir hann. „Þegar reykka­farar frá okkur eru um það bil að fara inn fellur svo hluti úr milli­loftinu, sem sagt gólfinu milli hæðanna, og þá kemur í ljós að það er allt líka ein­angrað með hálmi.“


Þá voru reykka­farar kallaðir út og á­kveðið að vinna slökkvi­starfið utan frá. Enn er unnið að því að ná stjórn á eldinum og eru um tuttugu slökkvi­liðs­menn að störfum á svæðinu. Pétur segir að að­gerðirnar klárist lík­lega ekki fyrr en seint í dag.