„Það er klárt mál að við förum ekki í þetta dæmi til að tapa á því,“ segir Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs á Kópaskeri, langstærsta vinnustaðarins í þorpinu. Tveir aðilar frá Kína hafa sýnt framleiðslu fyrirtækisins mikinn áhuga. Samningur á milli aðila gæti orðið mikil lyftistöng fyrir Fjallalamb og um leið samfélagið í heild.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra og Ni Yu­efeng, tolla­málaráðherra Kína, und­ir­rituðu nýja bók­un við fríversl­un­ar­samn­ing Íslands og Kína um heil­brigðis­vott­un á ís­lensku lamba­kjöti í byrjun mánaðarins en í Kína er mjög stór markaður fyrir lambakjöt. Fjallalamb á Kópaskeri er eins og sakir standa eina sláturhúsið á Íslandi sem má selja kjöt til Kína. 

Til að uppfylla skilyrði Kínverja þarf svæðið sem lambið er frá að hafa verið alveg laust við riðu í 20 ár. Þar er Norður-Þingeyjarsýslan í sérflokki, eins og stundum áður.

Fleiri samningar að nást

Rifjar má upp að Fréttablaðið greindi frá því í gær að Kjarnafæði hefði náð samningum við þýska aðila um útflutning á lambakjöti til Þýskalands. Sá samningur getur boðið upp á mikla möguleika á útflutningi til fleiri Evrópulanda eins og Austurríkis og Frakklands. Annar mikilvægur samningur gæti verið í pípunum hvað Fjallalamb varðar.

Víkingur er jarðbundinn og segir í samtali við Fréttablaðið að hann muni ekki fagna fyrr en samningar hafi verið undirritaðir. „Það stranda ansi mörg viðskipti á verði,“ segir hann.

Gætu lengt sláturtíðina, ef þyrfti

Kínverjarnir, fulltrúar beggja aðila, hafa heimsótt sláturhúsið nýlega og Víkingur viðurkennir að þeir hafi verið mjög áhugasamir. Áður en hægt sé að ganga til samninga þurfi að ljúka nokkrum formlegum atriðum, svo sem heilbrigðisvottun. Í því sé verið að vinna og það geti tekið fáeinar vikur.

Í Fjallalambi er 31 þúsund fjár slátrað árlega. Það eru um 500 tonn af kjöti. Í húsinu vinna um 20 manns. Aðspurður svarar Víkingur því til að ekkert standi í vegi fyrir að húsið slátri meiru, ef slíkar aðstæður koma upp. Hæglega megi framlengja sláturtíðina um þrjár vikur. „Aðamálið er að kjötið þarf að vera af hreinu svæði. Það eru mörg svæði að komast yfir þessi áraviðmið á næstunni. Kelduhverfi [í Öxarfirði, innsk. blm] telst hreint á næsta ári,“ segir hann.

Víkingur segist vilja selja hágæða afurð til Kína og leggur áherslu á að hægt verði að rekja uppruna kjötsins – sem er eitthvað sem Fjallalamb hefur sérhæft sig í að gera. „Við erum að leita að aðila sem er tilbúinn að vinna með gæðin með okkur. Það er í raun alveg tilgangslaust að gefa upp verð til aðila sem er alveg sama um gæðin. Það er fullt af kaupendum þarna úti og við áskiljum okkur rétt til að skoða málin vel.“

Gæti haft mjög góð áhrif

Þó Víkingur haldi spilunum þétt að sér, hvað væntingar varðar, viðurkennir hann að ef samningar náist sé hugsanlegt að sláturhúsið horfi fram á bjartari tíma. „Ef gott verð er í boði þá getur þetta haft mjög góð áhrif á samfélagið hérna. Bæði fyrirtækið og bændur.“ 

Hann leggur þó mikla áherslu á að ekkert sé í höfn fyrr en skrifað hafi verið undir. Hann vill síst af öllu skapa væntingar sem ekkert verður úr. Þá nefnir hann að gengi krónunnar frá ári til árs geti ráðið miklu um það hvort útflutningur sé arðbær.

Þriðjungur markaðar með lambakjöt í Kína

Svavar Halldórsson hjá, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem aðstoðar við samskipti og samningaviðræður, segist vera mjög bjartsýnn á að vel takist til. „Þeir voru mjög áhugasamir, vægast sagt,“ segir hann um Kínverjana. Hann segir að menn séu búnir að ræða lauslega um verð fyrir kjötið, án þess að nokkuð sé í hendi. Hugmyndir séu uppi um verð sem sé á „um eða yfir innanlandsverðinu“.

„Þetta mun breyta mjög miklu,“ segir Svavar um fyrirhugaða samninga við Kínverja. „Þriðjungur af lambakjötsmarkaði heimsins er í Kína.“ Hann segir raunhæft, ef allt gengur eftir, að fyrsta salan til Kína gæti orðið í janúar.

Flutt út í heilum skrokkum

Líkt og í tilfelli kjötsins sem fer til Þýskalands er gengið út frá því í samningum við Kínverja að kjötið sé flutt út í heilum skrokkum. „Með allan útflutning þá reyni ég að fá þá aðila til að hugsa um skrokkinn í heild. Þeir eru með gríðarlegt vinnuafl þarna úti – ódýrara en hér,“ segir Víkingur. Með því móti megi lækka kostnað við vinnslu verulega, sem geti skilað sér í betra verði til bænda. Svavar tekur í svipaðan streng.

Víkingur á von á því að málin skýrist innan fárra vikna. „Þetta er mjög áhugavert og gaman að skoða þetta. Ég er með ákveðnar tölur í huga sem ég þarf að fá fyrir kjötið svo bændur sjái sér hag í að framleiða fyrir það.“