Neytendasamtökin hafa miklar áhyggjur af vaxtahækkunum. Greiðslubyrði heimilis sem skuldar 40 milljónir í húsnæðislán eykst um 400.000 krónur á ári fyrir hvert hækkað prósentustig.

„Það er eins og bankarnir taki sér sjálfsvald í hækkun vaxta,“ segir Breki Karlsson hjá Neytendasamtökunum, en nokkur umræða hefur orðið um síðustu vaxtahækkanir í kosningabaráttunni.

Samtökin telja að flestöll lán á Íslandi sem beri breytilega vexti séu ólögleg. Þau undirbúa því málsókn gegn bönkunum. Stofnað hefur verið vefsvæðið vaxtamálid.is þar sem 1.200 lántakar hafa þegar skráð sig.

Um 5.000 lán liggja þar undir, að sögn Breka.„Við teljum að bankarnir hafi ofrukkað neytendur, meira að segja umfram eigin skilmála svo jafnvel nemur tugum milljarða,“ segir Breki.

Máli Neytendasamtakanna til stuðnings bendir Breki á hæstaréttardóm sem féll árið 2017, þar sem Íslandsbanka var gert að endurgreiða um 3.000 lántökum um milljarð króna.

Einnig nefnir hann úrskurð Evrópudómstólsins í fyrra gegn tveimur spænskum bönkum.Innan nokkurra vikna munu samtökin velja þrjú mál sem talin verða lýsandi fyrir hagsmuni flestra. Farið verður í fordæmisgefandi lögsókn, eina gegn hverjum banka.