Í síðustu viku þreyttu 333 einstaklingar inntökupróf í læknisfræði við Háskóla Íslands, sem er svipuð tala og undanfarin ár en fækkar þó um ellefu síðan í fyrra.

Þá tóku 82 einstaklingar inntökupróf í sjúkraþjálfun, eða sautján færri en í fyrra.

Engilbert Sigurðsson, deildarforseti læknadeildar HÍ, segir að þrátt fyrir fækkun á milli ára sé gríðarlegur áhugi á því að komast inn í læknanám hér á landi. „Áhuginn fer ekki minnkandi og við erum að fá 300–400 umsóknir á hverju ári.“

Í skýrslu um sérfræðinám lækna og framtíðarmönnun, sem gefin var út af heilbrigðisráðuneytinu í maí í fyrra, segir að því miður hafi læknaskortur háð „íslenskri heilsugæslu um árabil, ekki síst í dreifbýli.“ Í ár verða 60 nemendur teknir inn í læknisfræði en frá árinu 2016 hefur nemendum verið fjölgað úr 48 nemendum í 60 og segir Engilbert deildina ekki ráða við að taka við fleirum.

Hann segir læknum hérlendis þó fara fjölgandi enda fari stór hópur erlendis í nám. Aðspurður segir hann þá lækna flesta skila sér heim að námi loknu.

„Í vikunni hittum við þau sem eru að útskrifast úr læknanámi hérlendis og erlendis og eru að koma til starfa hér á landi, 50 voru að útskrifast frá Íslandi og 35 frá öðrum löndum.“