Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, fékk í gær leyfi til að áfrýja til hæstaréttar Bretlands ákvörðun dómstóla um að heimilt sé að framselja hann til Bandaríkjanna.

Undirréttur neitaði hins vegar að veita Assange heimild til að áfrýja beint þannig að hann þarf nú að bíða þess að hæstiréttur veiti honum áfrýjunarheimild.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks og einn nánasti samstarfsmaður Assange, segir að liðið gætu nokkrir mánuðir áður en málið kemst á borð hæstaréttar. „Niðurstaðan í dag var mikill áfangasigur en þetta er áframhaldandi slagur – næsta stopp er hæstiréttur Bretlands,“ segir hann.

„Kerfið er dálítið undarlegt hérna þannig að áfrýjunarrétturinn þurfti að gefa heimild fyrir sitt leyti til að það mætti fara fram á áfrýjun á þessu eina atriði sem út af stóð og þeir féllust á að það væri spurning sem ætti mögulega erindi til hæstaréttar. Hæstiréttur þarf síðan sjálfur að veita slíka heimild og lögmenn Julians hafa núna fjórtán daga til að undirbúa beiðni til hæstaréttar, en þetta er mjög mikilvægur áfangasigur, má segja, í þessum lagaslag.“

Atriðið sem um ræðir snýr að ákveðnum tryggingum sem Bandaríkjamenn reiddu fram eftir að þeir töpuðu máli um framsalskröfu í undirrétti í janúar 2021.

„Tryggingar um það að Julian fengi læknisaðstoð, hann yrði ekki settur undir einangrunarskilmála sem kallast „special administrative measures“, hann myndi ekki fara í Supermax-fangelsi í Florence, Colorado, og fleira í þeim dúr,“ segir Kristinn.

Hann bætir því við að umræddar tryggingar hafi verið skoðaðar ítarlega af samtökum á borð við Amnesty International, sem hafi komist að því að þær haldi ekki vatni. Tryggingarnar voru þó samþykktar af áfrýjunardómstól í desember 2021 sem úrskurðaði að hægt væri að framselja Assange til Bandaríkjanna ef svo bæri undir.

Kristinn Hrafnsson og Stella Morris, unnusta Julians Assange, fyrir framan dómshúsið í London 24. janúar 2021.
Fréttablaðið/Getty

Að sögn Kristins er afar óvenjulegt að dómstólar samþykki nýjar forsendur á borð við tryggingarnar í máli í áfrýjunarferli, en um þetta atriði verður tekist á í hæstarétti.

„Það er ákaflega þröngur stakkur skorinn, yfirleitt í áfrýjunarrétti, gagnvart nýjum upplýsingum sem hægt er að bera á borð. Það er bara ekki hlutverk áfrýjunarréttar að þar fari fram málflutningur um einhver ný atriði. En þarna fengu Ameríkanarnir leyfi til þess að fleygja þessu inn og ekki nóg með það, að miklu leyti byggði áfrýjunarrétturinn umsnúning sinn á niðurstöðu héraðsdóms á þessum nýju atriðum. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að fá þetta lagatæknilega atriði inn í hæstaréttinn, hvort þetta sé gjörningur sem standist skoðun.“

Kristinn segir merg málsins vera þann að á meðan það dregst á langinn í breska dómskerfinu þá „situr saklaus maður í mesta öryggisfangelsi Bretlands innilokaður“, en Julian Assange hefur nú setið í Belmarsh-öryggisfangelsinu í útjaðri Lundúna í rúma 1.000 daga.

Unnusta Julians Assange, Stella Morris, greindi frá því desember að hann hefði fengið heilablæðingu í fangelsisvistinni vegna mikils álags af málaferlunum. Spurður um hvað líkamlegri og andlegri heilsu Assange líði segir Kristinn:

„Það er náttúrlega ótrúleg seigla í honum og hann tórir en þetta er náttúrlega farið að taka býsna mikinn toll eins og menn geta ímyndað sér. Hann er búinn að vera núna í gæsluvarðhaldi í yfir 1.000 daga og það er náttúrlega sem slíkt réttarfarsbrot og auðvitað tekur það sinn toll að menn séu hafðir innandyra innilokaðir í þennan tíma … Þetta er náttúrlega alveg svakaleg pynding sem á sér stað þarna.“