Töluverðrar taugaveiklunar gætir nú í þinginu og spennustigið milli stjórnarflokkanna er mjög hátt. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Spennan er annars vegar tilkomin vegna jólastress í þinginu og hins vegar mikillar þreytu sem komin er í samstarfið, þótt hennar gæti í meiri mæli í þingliðinu en meðal ráðherra í ríkisstjórn. Efast nú fleiri um að framhald verði á samstarfi flokkanna þriggja eftir kosningar og er þeirri skoðun jafnvel hreyft að slíta eigi samstarfinu fyrr.

Togstreita um fjárlögin

Eins og ávallt eru síðustu vikur fyrir jól álagstími í þinginu vegna fjárlagavinnunnar. Mikil togstreita er sögð vera milli ráðuneyta, einkum milli heilbrigðisráðherra sem vill fá tugi milljarða til viðbótar í heilbrigðismálin og fjármálaráðherra sem tekur það ekki í mál.

Auk togstreitu um síðustu fjárlög kjörtímabilsins hafa ráðherrar orðið áhyggjur af málastöðunni og óttast að ná ekki forgangsmálum sínum gegnum ríkisstjórn og þingflokka á þessum síðasta þingvetri. Veldur þetta spennu milli ráðherra og þingliðs stjórnarmeirihlutans. Meðal þeirra mála sem ætla má að ágreiningur sé um eru fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra, áfengisfrumvarp dómsmálaráðherra og frumvörp umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð og þjóðgarðsstofnun.

Þá eru þingmenn byrjaðir að skoða stöðu sína fyrir næstu kosningar, enda flokkarnir farnir að huga að uppröðun á framboðslista. Þeir sem þurfa að fara gegnum prófkjör velta því óneitanlega fyrir sér hver sölupunkturinn inn í baklandið eigi að vera.

„Þá þykir mörgum hagfelldara að sýna sérstöðu sína fremur en samstöðu,“ eins og einn stjórnarþingmaðurinn komst að orði.

Óskhyggja eða dauðadæmt samstarf?

Viðmælendur blaðsins skiptast þó í tvö horn um framhaldið. Þingmenn í stjórnarandstöðu telja einsýnt að upp úr samstarfinu slitni skömmu eftir áramót og kosið verði í vor en ekki í september á næsta ári eins og boðað hefur verið. Þingmenn meirihlutans sem blaðið ræddi við telja það hins vegar óskhyggju stjórnarandstöðunnar, spennustigið sé ekki það hátt að sjóða muni upp úr. Öldur muni lægja þegar fjárlögin eru í höfn og fólk komið í jólafrí.

Komandi prófkjör og átök innan flokka hjálpa ekki

Margir þingmenn eru farnir að huga að stöðu sinni fyrir næstu kosningar, nú þegar aðferðir við uppröðun á framboðslista eru komnar til umræðu innan flokkana. Þeir þingmenn sem þurfa að treysta á árangur í prófkjöri hljóta að velta fyrir sér hver sölupunkturinn eigi að vera í kosningabaráttunni. „Þá þykir mörgum hagfelldara að sýna sérstöðu sína fremur en samstöðu,“ eins og einn stjórnarþingmaður komst að orði.

Margir eru til dæmis um oddvitasæti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ráðherrarnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson gera án efa kröfu um forystusæti en ólíklegt er að Sigríður Á. Andersen sé reiðubúin að gefa oddvitasæti sitt eftir. Þá er Brynjar Níelsson ekki heldur líklegur til að sýna sveigjanleika í annað sinn. Þessir fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga það einnig sameiginlegt að hafa efasemdir um ítrustu sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra og gætu talið auðveldara að bjóða sig fram á hugsjónum sínum, sannfæringu og sérstöðu án þess að vera bundnir af stjórnarsamstarfi og þar með samstöðu með áherslum ráðherra Vinstri grænna í heilbrigðismálum.

Það sama er uppi á teningnum í Suðurkjördæmi. Almælt er að Unnur Brá Konráðsdóttir ætli sér aftur á þing. Formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, mun hins vegar ætla að halda í forystusæti sitt í kjördæminu Ekkert fararsnið mun heldur vera á öðrum þingmönnum kjördæmisins, Ásmundi Friðrikssyni og Vilhjálmi Árnasyni. Þá eru fleiri konur í Sjálfstæðisflokknum að íhuga stjórnmálaþátttöku í kjördæminu en Unnur Brá, þeirra á meðal er Guðrún Hafsteinsdóttir í Kjörís.

Þótt Svandís Svavarsdóttir sé þyrnir í augum margra Sjálfstæðismanna hefur hún trúnað formanns síns flokks og forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur.
Sigtryggur Ari.

Aðstoðarmenn nokkurra ráðherra eru líklegir til að vilja losna undan þrýstingi stjórnarsamstarfsins en meðal þeirra aðstoðarmanna sem líklegir eru til framboðs í næstu kosningum eru Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra og varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi Norður, Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, og Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra og varaþingmaður VG í suðurkjördæmi.

Þar sem Vinstri græn og og Framsókn raða yfirleitt á lista með forvali eða uppstillingu, standa þingmenn þessara flokka ekki frammi fyrir sambærilegum vanda og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í það minnsta ekki fyrr en þegar hefur verið raðað á lista og út í kosningabaráttu milli flokkanna er komið.

Þótt það kynni að koma formanni Framsóknarflokksins ágætlega að flýta kosningum og slá með því á frest þeirri valdabaráttu sem ríkt hefur um forystu flokksins, er ekki líklegt að það kæmi varaformanni flokksins jafn vel. Lilja Alfreðsdóttir er níundi af ellefu þingmönnum Reykjavíkurkjördæmis suður en Framsókn hefur ekki mælst með mann inni í kjördæminu allt þetta kjörtímabil. Einnig er óvíst hver muni leiða hitt kjördæmi borgarinnar, Reykjavíkurkjördæmi norður, en lög­mann­in­um Lár­usi Sig­urði Lárus­syni sem leiddi lista Framsóknar í kjördæminu fyrir síðustu kosningar, var nýverið vikið úr starfi skipta­stjóra þrota­bús með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur vegna brots á starfsskyldum sínum.

Í Vinstri grænum er útlit fyrir fjöruga baráttu um oddvitasætið í Norðausturkjördæmi en Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tilkynnti fyrr í haust að yfirstandandi kjörtímabil yrði hans síðasta á þingi. Tveir hafa þegar lýst því yfir að þeir gefi kost á sér til forystu í kjördæminu; Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, og Óli Halldórsson, oddviti flokksins í bæjarstjórn Norðurþings. Eins og Fréttablaðið greindi nýverið frá hefur Kolbeinn Óttarsson Proppé nýverið fest kaup á fasteign á Siglufirði sem gæti bent til þess að hann hafi einnig áhuga á að leiða flokkinn í Norðausturkjördæmi.

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, tilkynnti í gær að hann verði ekki í kjöri í næstu kosningum. Samkvæmt óformlegri könnun Fréttablaðsins sem birt var í vor ætla Svandís Svavarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddvitar sinna kjördæma, að gefa áfram kost á sér. Þá hefur forsætisráðherra ekki gefið annað til kynna en að hún verði áfram í framboði og þótt Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafi svarað játandi, er ljóst í dag að hún mun ekki leiða lista VG í kraganum eins og í síðustu kosningum. Líklegast er að umhverfisráðherra og varaformaður flokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fari fram í því kjördæmi.

Í þágu minni flokkanna að stjórnin tóri

Þeir flokkar sem allra síst þurfa á því að halda að kosningum verði flýtt eru án efa þeir sem enn á eftir að stofna, eins og flokkar Andrésar Inga Jónssonar og Guðmundar Franklíns Jónssonar. Það er í mörg horn að líta við stofnun stjórnmálaflokks, fyrir utan skriffinnsku, stefnuskrá, flokkslög og slíkt, þarf að stofna félög um landið og finna á annað hundrað manns til að fylla framboðslista fyrir öll kjördæmin auk þúsunda meðmælenda fyrir hvert framboð.

Einnig verður að ætla að aðrir stjórnmálaflokkar sem stefna á þingframboð, bæði flokkar í stjórnarandstöðu og flokkar sem ekki eiga fulltrúa á þingi, þurfi rúman tíma til að undirbúa framboð. Óvíst er því að kosningar í vor henti öllum stjórnarandstöðuflokkunum sem börðust þó mjög fyrir vorkosningum þegar tímasetning kjördags var til umræðu síðastliðið sumar.