Íbúar Keníu standa á öndinni á meðan atkvæðatalning stendur yfir í forsetakosningum sem fóru fram í landinu á þriðjudaginn. Keppnin er hnífjöfn á milli fyrrverandi forsætisráðherrans Raila Odinga og núverandi varaforsetans Williams Ruto, raunar svo jöfn að fréttastofum kemur ekki saman um það hvor er með forskotið.

Spennan er ekki aðeins um það hver næsti leiðtogi landsins verður, heldur hver viðbrögðin verða við útkomunni. Árið 2007, þegar Raila Odinga tapaði naumlega kjöri á forsetastól, brutust út óeirðir þar sem að minnsta kosti 1.000 manns létust og allt að 600.000 hröktust á vergang. Óttast er að óvissa um niðurstöðuna gæti leitt til frekara ofbeldis.

Árið 2017 varð að endurtaka forsetakosningar vegna efasemda um réttmæta framkvæmd þeirra. Kjörstjórn hefur enn ekki birt formlegar tölur og virðist mjög í mun að forðast aðra slíka uppákomu.