Mikil spenna er í oddvitabaráttu Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Prófkjör í báðum kjördæmum fer fram á morgun.

Í Suðurkjördæmi gefa Guðrún Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Kjöríss, og þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason bæði kost á sér í 1. sæti.

Þau sem Fréttablaðið ræddi við segja annan brag á prófkjörsbaráttunni en oft áður. Meiri samstaða og samvinna sé milli frambjóðenda. Þeir ferðist jafnvel saman um kjördæmið og nýti kosningaskrifstofur hver hjá öðrum.

Guðrún er sögð njóta yfirgnæfandi stuðnings austan Markarfljóts en viðmælendur blaðsins eru hins vegar sammála um að úrslitin geti ráðist í Reykjanesbæ þar sem langflestir kjósendur eru. Það vinnur einnig með Guðrúnu að flokkurinn hefur liðið fyrir skertan hlut kvenna á framboðslistum flokksins á landsvísu og ekki síst í Suðurkjördæmi. Þá líta margir svo á að ef kona leiði listann sé minni skaði af því að karlmenn raðist í nokkur næstu sæti á eftir henni.

Vilhjálmur er vel liðinn í flokknum og er vel kynntur um allt kjördæmið. Þeim sem styðja hann þykir ekki hafa gefist vel í síðasta prófkjöri að setja nýjan mann beint í oddvitasætið í kjördæminu.

Spenna er einnig um oddvitasætið í Norðausturkjördæmi. Þingmaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson þykir af flokksfólki þó líklegri til að hafa betur en Gauti Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Múlaþings sem gefur einnig kost á sér til forystu í kjördæminu. Njáll Trausti er Akureyringur og Eyjafjarðarsvæðið er langfjölmennasta svæði kjördæmisins. Gauti nýtur hins vegar mikils stuðnings á Austfjörðum, í Þingeyjarsýslum og Skagafirði.

Ólíklegt þykir að uppljóstranir úr einkasamtölum Skæruliðadeildar Samherja hafi einhver áhrif á prófkjörið, en forstjóra Samherja mun ekki hugnast hugmyndin um Njál Trausta sem oddvita, einkum af því að hann þyki ekki líklegur til að fá ráðherraembætti að loknum kosningum.

Viðmælendum blaðsins þykir líklegra að skoðanir forstjórans á Njáli Trausta séu honum frekar til framdráttar í prófkjörinu en hitt.