Nú dregur óðum að lokum COP26, lofts­lags­ráð­stefnu Sam­einuðu þjóðanna í Glas­gow, og vinna nú lofts­lags­ráð­herrar ríkja hörðum höndum að því að setja saman loka­yfir­lýsingu ráð­stefnunnar.

Tinna Hall­gríms­dóttir, for­maður Ungra um­hverfis­sinna, og Finnur Ri­cart Andra­son, lofts­lags­full­trúi UU, hafa verið við­stödd ráð­stefnuna frá upp­hafi og að sögn þeirra eru við­ræðurnar að dragast á langinn.

„Það er mikil spenna í loftinu, mér finnst að þetta muni takast í kvöld, en enn þá um­tals­verð mót­staða við á­kveðin at­riði sem á eftir að nást ein­hugur um,“ segir Tinna í sam­tali við blaða­mann.

Finnur og Tinna segja margar hjart­næmar ræður hafa verið fluttar á COP26, sem minna á að lofts­lags­breytingar snúast um líf fólks.
Mynd/Aðsend

Hefur dregist mjög á langinn

Að sögn þeirra Tinnu og Finns eru full­trúar aðildar­ríkjanna enn að flytja ræður þrátt fyrir að for­seti COP26, Alok Sharma, hafi beðið lönd um að taka einungis til máls ef nauð­syn krefur.

„Þessi fundur er síðasti ó­form­legi fundurinn og átti að byrja fyrir rúmum 6 klukku­tímum og vonast var að hann myndi ganga hratt. Hins vegar dróst það að byrja fundinn og síðan er fundurinn sjálfur að dragast á langinn,“ segja þau.

Á­stæðan fyrir þessum töfum er ó­leystur á­greiningur um örfá mál þar sem nokkur ríki standa í vegi fyrir sam­komu­lagi.

„Lang­flest ríki virðast vera sam­mála um að þau texta­drög sem hafa komið fram núna eru ekki full­komin en að við verðum samt að komast að sam­komu­lagi fyrir fram­tíð nú­verandi og komandi kyn­slóða. Það er hins vegar tölu­verð mót­staða varðandi á­kveðin at­riði samningsins, m.a. um það hvort það eigi að inni­halda texta um að stöðva niður­greiðslur á jarð­efna­elds­neyti,“ segja Tinna og Finnur.

Þau lönd sem mót­mælt hafa samnings­drögunum eru meðal annars Ind­land, Kína, Suður-Afríka, Nígería, Venesúela og Íran. Þá hafi þróunar­ríkin sagt að kröfum þeirra varðandi skaða­bætur vegna af­leiðinga lofts­lags­breytinga hafi ekki verið mætt að fullu leyti en vonir eru bundnar við að það verði tekið upp aftur á næstu lofts­lags­ráð­stefnu SÞ að ári liðnu.

Tinna og Finnur hafa rekist á fjölmarga áhrifamenn á COP26. Hér má sjá John Kerry, sérstakan erindreka Bandaríkjanna í loftslagsmálum, og Bhupender Yadav, umhverfis og loftslagsráðherra Indlands, ræða saman.
Mynd/Aðsend

Það voru fluttar margar hjart­næmar ræður í salnum, sem minna okkur á að lofts­lags­breytingar snúast um líf fólks, líf sem hafa þegar tapast, líf sem munu tapast, og mögu­leika fólks (og annarra líf­vera) á far­sælli fram­tíð.

Þróunar­lönd þurfi að sætta sig við samninginn

Að sögn Tinnu og Finns hafi ræður full­trúa ríkjanna í dag ein­kennst af um­ræðum um ó­jöfnuð, lofs­lags­rétt­læti og mis­munandi getu þjóða til að fjár­magna lofts­lags­að­gerðirnar sem þarf að ráðast í, bæði hvað varðar sam­drátt í losun og að­lögun.

„Það virðist þó sem minnst þróuðu ríkin þurfi að sætta sig við þann texta sem nú er kominn til að eiga ekki á hættu að koma heim með ekkert, en mörg lýstu því yfir að þau gætu ekki snúið aftur til sinna barna með ekkert í höndunum, þótt þau hefðu viljað sjá miklu meira,“ segja þau.

Þá segja þau á­kveðna sam­stöðu hafa náðst um sjö­ttu grein samningsins sem fjallar meðal annars um að búa til skipu­lag til að tengja saman hnatt­ræna kol­efnis­markaði, þótt en sé ó­víst hvort hún muni ná í gegn ó­breytt.

„Það voru fluttar margar hjart­næmar ræður í salnum, sem minna okkur á að lofts­lags­breytingar snúast um líf fólks, líf sem hafa þegar tapast, líf sem munu tapast, og mögu­leika fólks (og annarra líf­vera) á far­sælli fram­tíð. Líkt og full­trúi Maldívu sagði er munurinn á milli 1,5 og 2 gráðum upp á líf og dauða fyrir margar þjóðir,“ segja þau Tinna og Finnur að lokum.