BYD, sem er stutt af bandaríska milljarðamæringnum Warren Buffet, seldi alls 641.000 rafdrifna bíla frá janúar til júní á þessu ári, en er þá einnig verið að tala um tvinnbíla og tengiltvinnbíla. Á sama tíma seldi Tesla 564.000 rafbíla en BYD hefur sagt að það vilji taka fram úr ameríska bílaframleiðandanum sem glímir við vandamál í Kína vegna skorts á rafhlöðum og lokunum vegna Covid-tilfella þar í landi. BYD hætti framleiðslu allra bíla sem eingöngu voru knúnir brunahreyflum í apríl á þessu ári og hefur sett markið á að framleiða 1,5 milljónir rafdrifinna bíla á þessu ári. BYD hefur líka lýst því yfir að það vilji sjá öðrum bílamerkjum fyrir rafhlöðum og þá einnig Tesla, en BYD er með 11,1% markaðshlutdeild á heimsvísu á þeim markaði og tók nýlega framúr LG sem sat þar í þriðja sæti. Á Íslandi er það Vatt ehf. sem er með söluumboð fyrir BYD og þegar er hafin sala á rafdrifnum sendibílum merkisins.