Sveitarstjórn Mýrdalshrepps segir í umsögn sem sveitarstjórn samþykkti í morgun að ef efnistaka á vikri skammt frá Hjörleifshöfða eigi að verða að veruleika sé ljóst að skipulag og flutningar geti ekki orðið eins og umhverfismatsskýrsla frá verkfræðistofunni Eflu geri ráð fyrir.

„Sú ályktun að starfsemin hafi óveruleg áhrif á útivist og ferðamennsku eins og hún er skipulögð er röng. Þjóðvegurinn er lífæð ferðamennsku á Íslandi og því er ljóst að sú umferð sem starfsemin gerir ráð fyrir mun hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðamennsku og alla almenna umferð á þjóðveginum,“ segir í umsögn sveitarfélagsins.

Eins er það mat sveitarstjórnar að áhrif á umferð séu verulega neikvæð og að þær ályktanir sem dregnar séu í skýrslunni lýsi miklu skilningsleysi á aðstæðum á þjóðveginum á Suðurlandi. Áhrif svo umfangsmikilla landflutninga á hljóðvist í þéttbýli væru enn fremur verulega neikvæð. Eðlilegt er að horft sé til mögulegra áhrifa starfseminnar á atvinnulíf og nærsamfélagið í ljósi þess rasks sem verður á umhverfi," segir í umsögn Mýrdalshrepps.

Þá segir að skipulag starfseminnar sem umhverfismatsskýrslan geri ráð fyrir bjóði vart upp á að nokkur störf verði raunverulega staðsett á svæðinu.

Flutningastarfsemi getur öll haft höfuðstöðvar annars staðar og sama gildir um þjónustu við slíka starfsemi. Í þeim tilfellum skilar starfsemin engum arði til nærsamfélagsins. Sveitarstjórn mælist til þess að fyrirkomulag starfseminnar verði endurskoðað og þess í stað gert ráð fyrir að vikrinum verði skipað af ströndinni sunnan við námusvæðið."

Sveitarfélagið lýsir sig reiðubúið til viðræðna um hafnargerð, sem gæti opnað á möguleika fyrir annars konar atvinnustarfsemi.

"Þannig mætti koma í veg fyrir veruleg neikvæð áhrif á umferð, hljóðvist og ferðamennsku með því að flytja vikurinn stystu leið með undirgöngum þar sem þvera þarf þjóðveginn. Með slíku fyrirkomulagi væri tryggt að starfsemin skilaði sér í atvinnuuppbyggingu í heimabyggð og verðmætasköpun á efnistökusvæðinu. Enn fremur væri slíkt fyrirkomulag mun frekar í samræmi við tilgang starfseminnar um að gera ferlið sem umhverfisvænast."