G-mjólk seldist upp í síðustu viku hjá MS og hefur verið ófáanleg. Að sögn Aðalsteins H. Magnússonar, sölu- og markaðsstjóra MS, komu nokkrir dagar tvær vikur í röð þar sem gat myndaðist í vöruhúsunum.

Hann segir mjög sjaldgæft að G-mjólk seljist upp. Hjá MS hafi menn þó tekið eftir því að ef mikið sé um framkvæmdir og fjölmennt byggingarlið úti um borg og bý aukist salan töluvert. Óvenju margir noti þá G-mjólk út í kaffið.

„Það er þannig með G-mjólkina að salan á henni virðist fylgja efnahagsástandinu,“ segir Aðalsteinn. „Þegar vel árar og mikið er að gera í hagkerfinu, ekki síst í byggingariðnaði, þá selst G-mjólkin vel. Þegar kreppir að verður samdráttur,“ bætir hann við.

Af orðum Aðalsteins má ráða að þensla einkenni líðandi stund. Hann segir að starfsmenn MS grínist stundum með það innanhúss að hægt sé að tala um G-mjólkurvísitölu í þessum efnum.