„Miðað við umfang skemmda þá er umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar þörf í skólanum.“ Þetta kemur fram í minnisblaði Verkís vegna myglu og raka í Fossvogsskóla. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær mun skólastarf riðlast verulega vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þær hefjast 18. mars. Um helmingur barnanna verður fluttur í annað húsnæði á meðan, samkvæmt Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Sjá einnig: Fossvogsskóli rýmdur að hluta

Í minnisblaðinu kemur fram að ekki sé hægt að ráðast í fullnaðarframkvæmdir á meðan nemendur og starfsmenn eru í skólanum en strax við lok núverandi skólaárs séu umfangsmiklar aðgerðir fyrirhugaðar. „Allt ónotað húsnæði verður innsiglað og lokað af á viðurkenndan hátt.“

Fram kemur að vandamálunum megi skipta í fernt. Í fyrsta lagi sé lélegt rakavarnarlag í þaki (að hluta) sem minnkar loftæði. Í öðru lagi eru loftræstikerfi í húsunum gömul að hluta. Í þriðja lagi þarf að bæta úr reglubundnum þrifum og í fjórða lagi eru fyrir hendi skemmdir vegna langvarandi leka.

Lekar hafa fundist víða í byggingum skólans, segir í minnisblaðinu. „Hvergi ætti að láta slíkt viðgangast og réttast og hagkvæmast er í öllum tilfellum að ráðast strax í viðgerðir.“ Víðtækra aðgerða sé þörf. Í grófum dráttum er aðgerðarplanið svona: Strax þarf að fara í alhreinsun, þar sem allir yfirborðsfletir í rými, þar með taldir stólar og borð. Á yfirstandandi skólaári þarf að fara fram regluleg hreinsun yfirborðsflata í rýmum (gólf, loft og veggir). Strax þarf að loka af stærstu skemmdu rýmin.

Í bréfi sem Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri sendi foreldrum í gær kemur fram að aðgerðirnar feli í sér mikla röskun á hefðbundnu skólastarfi næstu vikurnar. Næsta vika verður notuð til að skipuleggja skólastarfið miðað við aðstæður. „Fyrirhugað er að breytt skipulag á skólastarfi hefjist mánudaginn 18. mars og verða foreldrar upplýstir um nánara skipulag í næstu viku.“