Sigurjón Björn Torfason
Fimmtudagur 29. september 2022
05.00 GMT

Gasleiðslurnar liggja 1.200 kílómetra á 80 til 110 metra dýpi í Eystrasaltinu og flytja metangas frá Rússlandi til Þýskalands, þar sem því er dreift frekar um Evrópu. Nord Stream 1 var tekin í gagnið árið 2011 og hafði, fyrir stríðið í Úkraínu, flutt 170 milljónir rúmmetra af gasi frá Rússlandi til Evrópu á degi hverjum. Eftir að stríðið hófst hefur hvorug leiðslan verið notuð, en leiðslurnar voru fullar af gasi samt sem áður.

Enn er ekki vitað hvað olli því að leiðslurnar byrjuðu að leka en bilanir á leiðslum sem þessum eru afar sjaldgæfar og ólíklegar. Ekki þykir ólíklegt að lekinn hafi orðið af völdum sprengna því þykktin á veggjum leiðslunnar er töluverð, en þeir eru úr 27 til 41 millimetra stálhlíf sem þakin er 60 til 110 millimetra þykkri steypu.

Hafa áhyggjur af mengun

Gasleiðslan hefur flutt metangas á milli Rússlands og Þýskalands. Eftir að leiðslurnar rofnuðu hefur metangas flætt út í Eystrasaltið og þaðan upp á yfirborðið og út í andrúmsloftið.

Náttúruverndarsamtök eru þegar farin að tala um atvikið sem miklar hamfarir. Samkvæmt útreikningum frá háskólanum í Árósum gætu tuttugu til þrjátíu tonn af koltvísýringi farið út í andrúmsloftið, en það jafnast á við um tvo þriðju af mengun allrar Danmerkur á heilu ári.

Í samtali við Danska ríkisútvarpið segir prófessor við háskólann í Árósum að það sé mikið þegar það sé borið saman við Danmörku, en út frá mengun um allan heiminn sé mengunin ekki mikil. Hann tekur þó fram að svona atburðir ættu alls ekki að gerast.

Danska orkumálastofnunin segir helming gassins sem var í leiðslunum hafa náð að brjóta sér leið út en samt býst stofnunin ekki við að leiðslurnar tæmist fyrr en á sunnudag, fram að því megi búast við því að gas haldi áfram að streyma út í hafið.

Mælar greindu sprengingu

Jarðskjálftamælar í Danmörku og Svíþjóð greindu sprengingu skömmu áður en lekinn uppgötvaðist og voru dönsk yfirvöld fyrst til að lýsa því yfir að um skemmdarverk væri sennilega að ræða og að til stæði að rannsaka það frekar. Síðan þá hafa Þjóðverjar lýst yfir að þeir hyggist taka þátt í rannsókninni.

Danska ríkisstjórnin hélt í fyrradag blaðamannafund þar sem greint var frá gaslekanum.
Mynd/EPA

Fjöldi ríkja og stofnana hefur lýst yfir að þau óttist að um skemmdarverk sé að ræða. Yfirvöld í Úkraínu hafa lýst því yfir að Rússar beri ábyrgð á árásinni og segja hana vera hryðjuverk sem beinist gegn Evrópusambandinu.

Evrópusambandið telur einnig að um skemmdarverk sé að ræða. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, sagði í gær að „allar vísvitandi tilraunir til að hindra notkun gaskerfisins muni hafa alvarlegar afleiðingar og verði mætt með sterkasta mögulega viðbragði.“

Hver sem er gæti verið ábyrgur

Sænska ríkissjónvarpið greinir frá því að nokkur lönd eða hópar gætu viljað fremja skemmdarverk á báðum gasleiðslunum, að sögn Arnold Dupuy, en hann fór fyrir rannsóknarhópi innan NATO sem rannsakaði blendingshernað í Svíþjóð í síðustu viku.

Hann sagði að hver sem er gæti hafa staðið fyrir þessari mögulegu árás, hópar sem eru andvígir rússneskum yfirvöldum eða jafnvel úkraínskum. Aktívistar sem hliðhollir eru Rússlandi eða jafnvel starfsmenn á vegum Rússlands gætu einnig hafa staðið að þessu.

„Ég vil ekki kalla þetta skemmdarverk á þessu stigi, en ég held að það sé hugtakið sem þeir nota í Kreml. Það er mjög ólíklegt að þrír lekar komi upp á sama tíma á tveimur mismunandi gasleiðslum. Þetta lítur út eins og vísvitandi tilraun til að skemma gasleiðslurnar,“ sagði Dupuy í samtali við Sænska ríkissjónvarpið.

Öryggisráðið fundar á morgun

Dmítríj Peskov, talsmaður Kreml, sagði allar ásakanir þess eðlis að Rússar stæðu að baki árásinni „fyrirsjáanlegar og heimskar“ vegna þess að skemmdirnar muni valda Rússum miklu efnahagslegu tjóni.

Rússar kölluðu eftir því að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kæmi saman og ræddi gaslekann, en fimmtán ríki sitja í ráðinu. Kall Rússa eftir fundi hefur verið samþykkt og mun sá fundur fara fram á morgun, föstudag.

Auka öryggi við orkugrunnvirki

Norðmenn hafa aukið öryggi í kringum orkugrunnvirki Equinor, sem er olíufyrirtæki í eigu ríkisins. Eftirspurn eftir norsku gasi og olíu hefur aukist til muna eftir að stríðið í Úkraínu hófst, það er vegna þess að ýmis ríki Evrópu leita leiða til þess að kaupa olíu og gas sem kemur ekki upprunalega frá Rússlandi.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sagði norska herinn verða mjög sýnilegan héðan í frá í kringum búnað sem flytur gas og olíu. Stjórnmálamenn í Evrópu óttast að nýr kafli í blendingsstríði sé hafinn og að innviðir tengdir orkumálum gætu orðið illa úti í þeirri tegund hernaðar.

Athugasemdir