„Leið­togar verka­lýðs­hreyfingarinnar hljóta að gera sömu kröfur til sín og við­semjanda sinna hvað varðar fram­komu við starfs­fólk og virðingu gagn­vart réttindum þeirra .“ Þetta segir Þor­steinn Víg­lunds­son, for­stjóri Horn­steins ehf. og fyrr­verandi þing­maður Við­reisnar, í færslu á Face­book. Hann segir mikla ólgu hafa verið á skrif­stofu Eflingar frá því að Sól­veig Anna tók við for­mennsku í fé­laginu.

Stór hluti starfs­fólks hrökklast úr starfi

Þor­steinn vandar for­ystu Eflingar ekki kveðjurnar: „Mikið er þetta sér­kenni­leg fram­koma af hálfu frá­farandi for­ystu Eflingar í garð starfs­fólks fé­lagsins. Mikil ólga virðist hafa verið á skrif­stofu fé­lagsins allt frá því Sól­veig Anna tók við. Þorri þess fólks sem starfaði hjá fé­laginu virðist hafa hrökklast þar úr starfi og yfir­gnæfandi meiri­hluti þeirra starfs­manna sem nú eru að kvarta undan sam­skiptum við frá­farandi for­ystu eru ráðin til starfa af þeim,“ segir Þor­steinn í færslu sinni.

Hann heldur á­fram: „Starfs­fólk lýsir mikilli van­líðan á vinnu­stað, óskar eftir því að stjórn­endur bregðist við þeirri stöðu sem upp sé komin en lýsa um leið vilja til að leysa málin utan kast­ljóss fjöl­miðla. Frá­farandi for­ysta virðist hins vegar hafa stillt þeim upp við vegg og krafist skil­yrðis­lausrar stuðnings­yfir­lýsingar.“

Aldrei séð jafn mikið virðingar­leysi

Þor­steinn sakar for­ystu Eflingar um tví­skinnung: „Það eru sér­kenni­leg við­brögð við van­líðan starfs­manna. Hér er frá­farandi for­ysta Eflingar í hlut­verki vinnu­veit­enda. Ég velti fyrir mér hver við­brögð þeirra hefðu verið við sams­konar fram­komu annarra vinnu­veit­enda í garð fé­lags­manna þeirra.“

Þor­steinn heldur á­fram: „Ég hef unnið með fjöl­mörgum for­ystu­mönnum verka­lýðs­hreyfingarinnar. Aldrei hef ég séð neinn þeirra sýna af sér jafn mikið virðingar­leysi gagn­vart sam­starfs­mönnum sínum. Leið­togar verka­lýðs­hreyfingarinnar hljóta að gera sömu kröfur til sín og við­semjanda sinna hvað varðar fram­komu við starfs­fólk og virðingu gagn­vart réttindum þeirra. Annars geta þeir vart vænst mikils trú­verðug­leika í störfum sínum.“