Snjó­söfnun fyrir ofan Ísa­fjörð er talin vera mun minni heldur en í Önundar­firði og Súganda­firði. Þó hafa fjögur hús verið rýmd í Selja­lands­hverfi á Ísa­firði vegna snjó­flóða­hættu.

Líkt og fram hefur komið í fréttum féllu þrjú snjó­flóð á Vestur­landi í gær­kvöldi og flutti varð­skipið Þór fólk yfir til Ísa­fjarðar í kjöl­farið. Ein ung­lings­stúlka lenti í flóðinu og er hún komin til að­hlynningar á sjúkra­húsinu á Ísa­firði.

Neyðarþjónustan sameinaði í ferð í gegnum snjóflóðasvæðið

Kristinn Jóns­son, deildar­stjóri um­ferðar­þjónustu vega­gerðarinnar á Ísa­firði segir í sam­tali við Frétta­blaðið að neyðar­þjónusta þeirra hafi farið af stað klukkan fimm í morgun til þess að ryðja fjörðinn.

„Við fórum hingað sex manns með fylgd klukkan fimm í morgun í gegnum snjó­flóða­svæðið en vega­gerðin er hérna uppi í fjalli. Það var sam­einað í eina ferð í morgun til þess að við þyrftum ekki að vera að fara oft í gegnum snjó­flóða­svæðið. Þannig að við vitum voða­lega lítið um á­stand fólks þarna niðri en ég held að fólk taki þessi með ró. Það er auð­vitað ekki fært á milli Holta­hverfis og Ísa­fjarðar og á milli eyrarinnar og ekki út í Hnífs­dal og Bolungar­vík. Ég held þó að það sé enginn í panikk enda er fólk hérna vant ein­angrun,“ segir Kristinn.

Aðstæður við Vegagerðina á Ísafirði.
Mynd/Aðsend
Svona leit bíll Kristins út í morgun.
Mynd/Kristinn Jónsson
Fólk á Ísafirði er vant einangrun vegna óveðurs.
Mynd/Kristinn Jónsson
Mikill snjór hefur verið á Ísafirði undanfarið.
Mynd/Kristinn Jónsson

Almenningur beðin um að virða lokanir

Hlynur Snorra­son, yfir­lög­reglu­þjónn í að­gerða­stjórn á Ísa­firði sagði í sam­tali við Rúv að land­leiðin sé ófær og að það tor­veldi að koma mann­skap og björgun á milli staða. Það hafi því komið sér vel að varð­skipið Þór hafi verið á Vest­fjörðum.

Lög­reglan á Vest­fjörðum biðlar til al­mennings um að virða lokanir á vegum en mjög tor­fært er um þétt­býlis­staði vegna snjóa og vegir enn lokaðir á milli þétt­býlis­kjarna vegna ó­færðar.