Strætó bs. hefur opnað sérstakan hjálparsíma fyrir fatlað fólk og öryrkja sem þurfa aðstoð við nýtt greiðslukerfi sem tekið hefur verið í gagnið.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á þriðjudag hefur nýja kerfið reynst mörgum öryrkjum erfitt. Upplifa þau það flókið og þar að auki þurfa þau að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum til að virkja öryrkja­afslátt.

Ekki geta allir fengið rafræn skilríki eða notað þau. Dæmi eru um að sökum fötlunar geti einstaklingar ekki sjálfir valið sér lykilorð fyrir rafræn skilríki og megi ekki fá aðstoð við það.

Strætó fundaði með Þroskahjálp í gær vegna málsins og segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, það yfirlýstan vilja Strætó að gera betur í þjónustu við öryrkja.

Strætó fundaði með Þroskahjálp í gær vegna málsins.
mynd/aðsend

Ásamt því að opna hjálparsímann býður Strætó þeim sem hjálp þurfa við nýja kerfið að koma í höfuðstöðvar sínar og kaupa kort á afslætti.

„Við mælum með að fólk taki með sér skilríki og gögn til að staðfesta örorku,“ segir Jóhannes. Þá segir hann að til standi að fara í heimsóknir til Þroskahjálpar, Áss styrktarfélags og fleiri staða, til að aðstoða fólk vegna greiðslukerfisins.

Spurður hvers vegna svo mikilvægt sé að farþegar sem eigi rétt á öryrkjaafslætti staðfesti örorku segir Guðmundur Heiðar Helguson, upplýsingafulltrúi Strætó, reynsluna hafa sýnt að mikið sé um að fargjöld fyrir öryrkja séu misnotuð.

„Það er mikið um það að fólk sem er ekki öryrkjar sé að nýta sér afsláttinn og það er eitthvað sem við þurfum að bregðast við,“ segir hann. „Við þurfum að koma því þannig fyrir að fólkið sem á rétt á afslættinum sé eingöngu þeir sem fá þetta góða verð. Okkar tekjur byggjast mikið á fargjöldum.“