Við Grens­ás­veg mældist í dag klukkan tvö 328 mí­krógrömm af svif­ryki á rúm­metra, á einni klukku­stund. Sólar­hrings­heilsu­verndar­mörkin fyrir svif­ryk eru 50 mí­krógrömm á rúm­metra. Við upp­haf dags mældist nær ekkert svif­ryk, en um leið og byrjaði að hvessa má sjá að það jókst fljótt. Hægt er að fylgjast með mælingum á loft­gæðum í raun­tíma á heima­síðu Um­hverfis­stofnunar hér. 

Klukkan 11 var það metið mjög slæmt og stendur enn þannig, þótt það hafi að­eins lækkað frá því klukkan 14 og standi nú í um 197 mí­krógrömmum á rúm­metra. 

„Það er kominn svo mikill vindur í borginni að allt um­hverfis­rykið þyrlaðist upp,“ segir Svava S. Steinars­dóttir hjá Heil­brigðis­eftir­lit Reykja­víkur í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Svava segir að þrátt fyrir að svif­ryk hafi mælst svo mikið í dag þurfi ekki að vera að það muni mælast yfir heilsu­verndar­mörkum þegar litið er til alls sólar­hringsins. Í morgun hafi sem dæmi varla mælst neitt svif­ryk víða í borginni. 

„Áður en rokið kemur eru lágar tölur, en um leið og fer að hvessa þá rjúka tölurnar upp. Þar sem er meira skjól í borginni, eins og í Grafar­vogi og í Fjöl­skyldu- og hús­dýra­garðinum, er minna ryk í um­hverfinu. En mér sýnist til allrar lukku að þetta sé að­eins að detta niður og er orðið grænt í Njörva­sundi. En miðað við okkar reynslu teljum við ekkert endi­lega að þetta fari yfir sólar­hrings­heilsu­mörkin þrátt fyrir að þetta slái mann vissu­lega þegar það koma svona há gildi,“ segir Svava. 

Viðbúið þegar þau vissu að það myndi hvessa

Hún segir að þessi staða hafi verið við­búin þegar búið hafi verið að spá að það myndi hvessa. Í byrjun vikunnar var svo­kölluðum „gráum dögum“ spáð og varað við mikilli loft­mengun vegna stillu og kulda. Á þriðju­dag voru helstu stofn­brautir og fleiri götur í borginni ryk­bundnar. Í dag hafi hins vegar ekki gengið að gera það þegar gildi ruku upp vegna roksins. 

„Við náðum góðum árangri með ryk­bindingu og fórum ekki yfir sólar­hrings­heilsu­verndar­mörk frá því að henni var komið á,“ segir Svava. 

Hún segir að heil­brigðis­eftir­litið hafi farið í eftir­lits­ferðir á þriðju­dags­kvöldið og árangurinn hafi verið ljós þegar keyrt var yfir sveitar­fé­lags­mörkin, þar sem ekki var ryk­bundið í Kópa­vogi. 

„Við erum því búin að stað­festa að þetta efni er að hjálpa okkur. En hins vega þegar það eru svona veður­að­stæður þá rýkur þetta upp alls staðar,“ segir Svava.