Mikil klaka­stífla hefur myndast í Hvít­á við Austur­kots­eyju ná­lægt Kiðja­bergi á Suður­landi og flæðir áin nú yfir bakka sína að sunnan­verðu. Gísli Hauks­son, bóndi á Stóru Reykjum, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að áin hafi flætt yfir tún og út­litið sé tví­sýnt.

„Állinn er alveg stíflaður norðan megin við eyjuna og svo flæðir hún yfir bakka sína að sunnan­verðu og það er fjöru­tíu hektara tún sem ég er með og er alveg þakið,“ segir Gísli.

Að hans sögn er erfitt að segja hversu slæmt flóðið er.

„Maður veit ekkert, þetta er náttúru­lega ný­byrjað. En árið 2001 varð alveg of­boðs­legt flóð, þá fór það alveg yfir þjóð­veg eitt og við vorum alveg um­flotin þá. En það er ekki orðið svo­leiðis enn þá.“

Ef áin stíflist sunnan megin við eyjuna líka muni á­standið verða mjög slæmt. „Þá kemur allt vatnið úr Hvít­á bara hérna yfir og þá verður þetta mjög mikið.“

Gísli segir það vera slæmt fyrir túnin að liggja svona undir vatni, sér­stak­lega þar sem spáð er frosti fram undan. „Ef það kemur vatn yfir öll túnin og kemur svo bál­gaddur þá er það ekki góð upp­skrift.“

Þá geti það tekið tölu­verðan tíma fyrir vatnið að fara af túnunum þar sem frost sé í jörðu og því taki túnin ekki við vatninu.