Starfsfólki Seðlabankans hefur fjölgað um 160 prósent frá því árið 2000. Í lok þess árs voru þeir 113 talsins en í lok síðasta árs voru þeir 294.

Óvarlegt er þó að draga þá ályktun að Seðlabankinn hafi þanist stjórnlaust út á þessu tímabili.

Fram til ársloka 2019 fjölgaði starfsmönnum bankans um 56,5 prósent og voru 177 en höfðu flestir orðið 185 árin 2016 og 2017.

Í lok árs 2019 var Fjármálaeftirlitið fært undir Seðlabankann og þá jókst starfsmannafjöldinn á einu bretti um 126. Í árslok 2020 voru starfsmenn Seðlabankans, þar með talið Fjármálaeftirlitsins, 303 talsins.

Í fyrra fækkaði starfsmönnum um níu og voru um síðustu áramót 294.

Eftir stendur að fjölgunin sem varð á milli 2000 og 2019 er langt umfram fólksfjölgun og aukin umsvif í hagkerfinu. Athygli vekur að megnið af fjölgun starfa í Seðlabankanum hefur orðið til eftir hrun en frá 2000 til 2008 fjölgaði starfsfólki um ellefu og þar af um níu bara á árinu 2008.

Á næstu átta árum, fram til ársloka 2016, fjölgaði störfum í Seðlabankanum um nálega helming, úr 124 í 185.