Gistinóttum í ágúst fjölgaði um 84 prósent saman­borið við sama mánuð í fyrra. Mest var fjölgunin á hótelum eða 149 prósent, um 78 prósent á gisti­heimilum og um 67 prósent á öðrum skráðum gisti­stöðum á borð við tjald­svæði og or­lofs­hús. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hag­stofu Ís­lands.

Þrátt fyrir þessa miklu hækkun milli ára hefur gistinóttum engu að síður fækkað um 27 prósent saman­borið við ágúst 2019, áður en Co­vid-far­aldurinn hófst. Á hótelum nemur fækkunin 16 prósentum, 7 prósentum á gisti­heimilum og 13 prósent á öðrum skráðum gisti­stöðum.

Mest var fjölgunin á hótelum eða 149 prósent.
Fréttablaðið/Anton Brink

Nokkur aukning var á fram­boði hótel­her­bergja í ágúst, um 17 prósent miðað við ágúst í fyrra. Her­bergja­nýting var 76,3 prósent og jókst um 40 prósentu­stig frá því á sama tíma í fyrra. Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum lands­hlutum, hlut­falls­lega mest á Suður­nesjum þar sem gisti­nætur tæp­lega fjór­földuðust en rúm­lega þre­földuðust á höfuð­borgar­svæðinu.

Gisti­nætur Ís­lendinga voru 27 prósent af hótel­gistinóttum, á meðan er­lendar gisti­nætur voru 73 prósent. Er­lendar gisti­nætur tæp­lega fjór­földuðust í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á meðan ís­lenskar jukust um 30 prósent.