Verkefnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði í fyrra, samanborið við árin þar á undan.

Skráð voru sextán prósent fleiri mál hjá lögreglunni árið 2018 en að meðaltali árin 2015 til 2017. Einnig voru afskipti höfð af fjórðungi fleiri einstaklingum í fyrra og lögreglan sinnti 27 prósent fleiri verkefnum. Á hverjum einasta degi voru að jafnaði skráð um 350 verkefni í málaskrá lögreglunnar en þau voru um 280 að meðaltali hin þrjú árin á undan.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrotatölfræði ársins 2018.

Til að mynda var tilkynnt um 9.762 hegningarlagabrot til lögreglunnar sem er fimm prósent fjölgun milli ára. Umferðarlagabrotum fjölgaði mikið á árinu sem leið og voru um 45 þúsund brot skráð á höfuðborgarsvæðinu sem er fimmtán prósent fjölgun milli ára.

„Hegningarlagabrotum fjölgar og þar er það aðallega heimilisofbeldismálum sem fjölgar. Einnig er aukning í kynferðisbrotum með aukinni tiltrú á kerfinu og meiri umræðu í samfélaginu með tilkomu Me too hreyfingarinnar. Allt slíkt umtal hjálpar,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinuþ

Þá segir Sigríður Björk fleiri mál koma inn til lögreglu frá Bjarkahlíð sem hún telji að að hefðu ekki að öðrum kosti komið inn á borð lögreglu.

„Brotaþolar eiga kannski auðveldara með að koma þangað en inn á lögreglustöð til okkar beint. Við auðvitað viljum að öll lögbrot komi á borð lögreglunnar.“

Að mati Sigríðar Bjarkar hafa lögreglumenn unnið afar gott starf á árinu og mikill kraftur sé í starfi þeirra. Markmiðið sé að veita landsmönnum góða þjónustu og auka öryggið.

Við sjáum hins vegar núna að innbrotum fjölgar og þar eru oft skipulagðir erlendir hópar að verki sem koma inn þegar velmegun hér er mikil. Við höfum á árinu upprætt nokkra slíka hópa en svo virðist sem nýir hópar komi inn í staðinn,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir.