Ljóst er að eftirspurn er eftir sumarnámi í Háskóla Íslands meðal nemenda en opnað var fyrir skráningu þann 20. maí síðastliðinn.

„Skráning fer afar vel af stað og við höfum vart undan að svara fyrirspurnum alls staðar að. Nú þegar eru komnar um ellefu hundruð skráningar í þau mörgu og fjölbreyttu námskeið sem við erum að bjóða upp á,“ segir Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri við Háskóla Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Flestir umsækjenda eru þegar nemar við skólann en einnig ber á því að framhaldsskólanemar séu byrjaðir að skrá sig. Skráningarnar eiga við um kúrsana og því liggur fjöldi nemenda ekki fyrir þar sem sumir skrái sig í fleiri en einn eða tvo kúrsa.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið úthlutaði 500 milljónum til að koma á laggirnar sumarnámi fyrir háskólanema vegna þeirra afleiðinga sem COVID-19 hefur haft á skólagöngu nema og minnkaðs atvinnuframboðs í landinu og fékk HÍ 250 milljónir úthlutaðar af þeirri upphæð.

Renndu blint í sjóinn með sumarskóla

„Eftirspurnin fór fram úr væntingum margra. Skráningin fyrstu dagana lofar mjög góðu og bendir allt til þess að mikill áhugi sé til staðar í samfélaginu á sumarnámi við Háskóla Íslands. Við gerum ráð fyrir að aðsókn muni aukast jafnt og þétt á næstu dögum eftir því sem við kynnum námið betur. Framboðið er mikið og við erum m.a. með athyglisverð netnámskeið í samstarfi við erlenda samstarfsháskóla í edX-samstarfsnetinu.“

EdX er alþjóðlegt samstarfsnet háskóla um rekstur opinna netnámskeiða sem bandarísku háskólarnir Harvard og MIT leiða og Háskóli Íslands hefur verið aðili að því undanfarin ár.

„Við renndum að vissu leyti blint í sjóinn með sumarskólann og gátum ekki alveg séð fyrir okkur hver eftirspurnin yrði við þessar óvenjulegu aðstæður. Þessi mikla eftirspurn strax við opnun skráningar er ánægjuefni. Námið í sumarskóla Háskóla Íslands er fjölbreytt og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, segir Róbert.

Það hvort sumarskólinn sé kominn til að vera mun líklega ráðast af hversu vel úrræðið gefst í sumar.

„Við eigum eftir að draga ýmsan lærdóm af COVID-19 faraldrinum, meðal annars um sumarskólann,“ segir Róbert.