Vega­gerðin mun bæta öku­mönnum það tjón sem orðið hefur á öku­tækjum þeirra vegna blæðinga á köflum Hring­vegarins milli Borgar­fjarðar og Skaga­fjarðar. Ljóst er að tjónið hleypur á ein­hverjum milljónum en fjár­hags­legt tjón vegna skemmda á veginum sem verða við þessar að­stæður gæti orðið mun kostnaðar­samara fyrir Vega­gerðina en bætur vegna skemmda á bílum.

G. Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi Vega­gerðarinnar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að blæðingar á veginum séu með þeim verstu sem hann þekki til. Þær myndast fyrir sam­spil ýmissa þátta. Þegar bik­klæðning er lögð er lagt stein­efni yfir bikið á veginum. Þegar skyndi­lega hlýnar í veðri eftir frost kemst raki í bikið undir stein­efna­laginu. Um­ferð þungra öku­tækja pumpar svo bikinu upp við þessar að­stæður um pínu­litlar holur á efsta laginu, svo litlar að það er mjög erfitt að átta sig á því hvar á veginum bikið kemur upp.

Vega­gerðin ber á­byrgð á tjóni sem verður á öku­tækjum á veginum á meðan hún hefur ekki til­kynnt um að­stæðurnar eða varað við þeim með við­eig­andi merkingum við veginn. Vega­gerðin hafði ekki gert þetta í gær en sendi út til­kynningu í morgun um á­standið og kom upp skiltum víða á svæðinu. Pétur segir í sam­tali við Frétta­blaðið að stofnunin muni þó lík­lega einnig þurfa að bæta það tjón sem verður á öku­tækjum í dag: „Í raun og veru er laga­skyldan svona en við skoðum samt öll mál. En að­stæðurnar þarna eru það lúmskar núna að það er mjög erfitt fyrir fólk að vara sig á þessu þó að við séum búin að var við.“

Þegar hafa þó­nokkrar til­kynningar borist um tjón á öku­tækjum. Í sam­tali við RÚV í morgun sagðist fram­­kvæmda­­stjóri Vöru­­miðlunar á Sauð­ár­króki, Magnús E. Svavars­­son, hafa til­kynnt Vega­gerðinni um milljóna­tjón á að minnsta kosti ellefu vöru­flutninga­bílum fyrir­tækisins. Pétur segir að fleiri til­kynningar hafi þegar borist en er ekki með ná­kvæma tölu á þeim. Hér er hægt að senda inn tilkynningar um tjón til Vegagerðarinnar.

Þunga­um­ferð er vanda­málið

Hann segir minni bíla aðal­lega þurfa að vara sig á kögglum á veginum sem gætu skapað hættu eða or­sakað skemmdir á bílunum. Þunga­flutninga­bílarnir geta hins vegar varla forðast tjón á svæðinu því bikið hleðst utan á dekk og botn þeirra.

Pétur segir það koma til greina að tak­marka leyfðan þunga öku­tækja um veginn í dag og loka honum þannig fyrir þungum vöru­flutninga­bílum. „Það er eitt­hvað sem er verið að skoða, hvort það gæti haft ein­hver á­hrif.“

Það eru nefni­lega þunga­flutninga­bílarnir sem eru helsta vanda­málið. Þeir eru ekki að­eins í mestri hættu á að verða fyrir skemmdum þegar veginum blæðir heldur eiga þeir bæði sinn þátt í því að valda blæðingunni til að byrja með og því að skemma veginn þegar blæðingin er í gangi.

Þegar vöru­flutninga­bílarnir keyra veginn við þessar að­stæður pumpast bikið, sem fyrr segir, upp um litlar holur á efsta lagi klæðningarinnar og límist utan um dekk og botn þeirra. Þeir taka því með sér hluta vegarins um leið og þeir keyra hann.

Eins og sjá má límist bikið við dekk og aðra staði þungra ökutækja. Þetta gerist ekki við fólksbíla.
Mynd/Samsett/Vegagerðin

Pétur segir að þetta stytti endingu slit­lagsins og vegarins í heild sinni. „Þannig það kemur fyrr að því að við þurfum að fara í við­hald á veginum og leggja yfir hann aftur.“ Getiði eitt­hvað metið fjár­hags­legt tjón fyrir ykkur vegna þessa? „Það fer eftir því hversu mikið styttra vegurinn endist en ella út af ein­mitt þessu og það er bara mjög erfitt að meta það. En það munar al­deilis um hvert ár sem þarf ekki að halda veginum við. Þetta fer svo allt eftir því hvað þetta eru langir kaflar þar sem bikið er að koma upp og svo fram­vegis. Það er mjög erfitt að meta þetta.“

Hlýnandi lofts­lag vanda­mál

Veður­fræðingurinn Einar Svein­björns­son ræddi veg­blæðingarnar í pistli á Face­book í dag. Þar nefndi hann að hláku­tíðir sem þessar gætu kostað Vega­gerðina og þar með sam­fé­lagið marga milljarða og bendir á að þetta sé mögu­legur fórnar­kostnaður hlýnandi lofts­lags. Lengri þíðu­kaflar að vetri séu orðnir mun al­gengari en áður.

Spurður hvort hann hafi fundið fyrir því að tjöru­blæðingar á vegum hafi orðið al­gengari með árunum segist Pétur telja það. „Já, þessi tíðu skipti frosts og þýðu eru að skapa okkur ýmis vanda­mál, þar á meðal þetta. Eins og menn vita þá var gríðar­legur hita­munur síðustu daga; mikið frost í nokkra daga en svo fór hitinn upp í nokkrar gráður. Það er það sem veldur þessu.“

Hrun og ferða­menn

Ljóst er að mun dýrara er að mal­bika en leggja veg­klæðningu sem þessa, um þrisvar til fimm sinnum dýrara. Spurður hvort tími sé kominn til að endur­skoða fyrir­komu­lagið á Ís­landi og hvort það gæti borgað sig á endanum að leggja mal­bik segir Pétur: „Í raun höfum við verið að gera það. Við höfum verið að leggja mal­bik og erum komin austur að Þjórs­á og norður í Borgar­nes.“

„Leið­beiningarnar okkar eru þær að fara eftir magn um­ferðarinnar þegar við erum að á­kveða for­gangs­röðun og hvar eigi að vera mal­bik en ekki klæðning. Það sem hefur gerst á síðustu árum er svo aðal­lega tvennt: Annars vegar kom hrun sem tafði upp­byggingu leiðarinnar frá Reykja­vík að Akur­eyri og hins vegar varð hér mikil breyting á fjölda ferða­manna. Þeir eru fyrst og fremst á leiðinni frá Reykja­vík að Jökuls­ár­lóni þannig allt í einu stóðum við frammi fyrir því að vera búin að byggja meira upp veginn norður en allt í einu kemur líka gríðar­leg um­ferð suður­leiðina,“ segir hann.

„Okkar vilji myndi auð­vitað standa til að lengja þessa kafla þar sem er mal­bikað. Og vegna þess að þunga­um­ferðin sem slítur vegum og gerir þessar blæðingar miklu lík­legri þá er það heil­mikið keppi­kefli að leggja það svæði sem er mal­bikað.“