Samkvæmt upplýsingum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands fjölgaði umsóknum um nám í kennsluréttindum um 30% í ár, miðað við meðaltal umsækjenda síðastliðinna fimm ára. Alls sóttu 264 nemendur um M.Ed nám í kennsluréttindum í ár en 186 hafa að meðaltali sótt um síðastliðin 5 ár.

„Þetta eru virkilega ánægjulegar fréttir og að mínu mati góð vísbending um að við séum á réttri leið. Kennarastarfið er enda spennandi kostur sem býður upp á fjölbreytta starfsmöguleika og mikið starfsöryggi. Það er eftirtektarverð gróska í íslenskum skólum þessi misserin og ég finn sjálf fyrir miklum meðbyr með menntamálum og umræðunni um íslenskt skólastarf til framtíðar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.

Einnig veitir Mennta- og menningarmálaráðuneytið nú styrki til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn meðal annars til þess að geta tekið á móti nýjum kennurum sem koma til starfa í skólum. Umsóknir um slíka styrki hafa aukist um 100%. Þetta er meðal annars gert til að sporna við brotthvarfi nýútskrifaðra kennara úr starfi en mest hætta er talin á brotthvarfi fyrstu 3 árin í starfi.

Jafnframt er nú námsstyrkur sem nemur allt að 800.000 krónum er í boði fyrir nemendur á lokaári í fyrrnefndu meistaranámi til þess að sinna lokaverkefnum sínum samhliða starfsnámi árs. Styrkurinn er greiddur úr svokölluðum Nýliðunarsjóði sem tekur til starfa skólaárið 2019/2020.

Búið er að gera ráð fyrir kostnaði upp á 200 – 250 milljónir vegna þessara fjárveitinga.

Frumvarp að nýju námslánakerfi er í bígerð og er væntanlegt í samráðsgáttina í lok júní þar sem áformað er að nemendur í kennaranámi skuli njóta sérkjara hjá Lánastofnun íslenskra námsmanna. Hefur Lilja áður sagt að hún vilji fjárhagslegan hvata úr Lánsjóðnum tímabundið til að auka aðsókn í kennaranám og að svipaðar aðgerðir hafi gefið góða raun í Noregi.

Einnig er verið er að leggja lokahönd á frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Markmiðið með þeim er meðal annars að auka sveigjanleika og samfellu milli skólastiga en áformað er að aðeins eitt leyfisbréf til kennlsuréttinda verði gefið út í stað þriggja líkt og nú er.

Árið 2018 voru útskrifaðir leikskólakennarar 22 en grunnskólakennarar 77. Metið er að á leikskólastigi þurfi að manna um 1800 stöður. Nýnemum í grunnnámi í leik- og grunnskólakennslu fækkaði um 40% á árunum 2008 – 2018.