Gert ráð fyrir 52 prósenta aukningu í krabbameinsgreiningum hér á landi árið 2040. Fjölgunin er sögð stafa fyrst og fremst af mannfjölgun og aldurssamsetningu þjóðarinnar, þjóðin sé að eldast.

Sigríður Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins, segir samfélagið ekki búið að átta sig á hvað þessi aukning raunverulega þýði.

Samkvæmt 52 prósenta aukningu sé gert ráð fyrir að ný tilvik verði tæplega þúsund fleiri árið 2040 en í dag. Í dag greinist um 1.800 manns með krabbamein á ári, árið 2035 megi því gera ráð fyrir að rúmlega 2.500 manns greinist og árið 2040 verði hópurinn orðinn enn stærri eða um 2.800 manns.

Stórt verkefni framundan

Sigríður segir þróunina hafa verið stígandi á undanförnum árum og gríðarleg fjölgun sé í hópi fólks sem greinist með krabbamein og einnig þeirra sem lifa af meðferð.

„Það hefur náttúrulega aukist mjög þjónustuþörf í þessum málaflokki á undanförnum árum og svo sjáum við þessa miklu fjölgun á næstu árum sem er langt umfram þá aukningu sem við höfum verið að sjá,“ segir Sigríður og bætir við að verkefnið sé mjög stórt og af viðbrögðum landanna í kring að dæma vekur fjölgunin, sem er fyrirséð innan þeirra, miklar áhyggjur þrátt fyrir að vera innan við helmingur af því sem við munum sjá hlutfallslega.

Þurfi skýra aðgerðaáætlun

Að sögn Sigríðar hafa löndin í kring þegar hafið undirbúning fyrir verkefnið en að hér þurfi skýrari aðgerðaáætlun til að mæta þessari aukningu. „Ef við viljum ganga að þjónustu eins og við höfum í dag, sem að er góð og skilar góðum árangri. Ef við grípum ekki til mjög markvissra aðgerða í dag þá er mjög hæpið að við munum geta gert það,“ segir Sigríður jafnframt. Hún segir mikilvægt að efla og styrkja það sem fyrir er ásamt því að leita nýrra lausna. Aukningin krefjist fjölþættra aðgerða og verja þurfi fjármunum í það sem skili mestum árangri og skapar mest virði.

Aðspurð segir Sigríður samtal við stjórnvöld hafið og að krabbameinsáætlun hafi verið samþykkt um nokkurt ára skeið. „Okkur er sagt að það sé svona verið að skoða ákveðna forgangsröðun þar innan úr ráðuneytinu og það er náttúrulega mjög vel. En við teljum að það þurfi mjög víðtækt samráð um það og svona heildstæða aðgerðaáætlun. Svo er annað sem vekur kannski áhyggjur að það er ekkert að sjá þess merki í fjárlögum næsta árs eða fimm ára fjármálaáætlun að það sé eitthvað sérstaklega gert ráð fyrir þessu verkefni sem mun kosta mikla peninga,“ segir hún.

Sigríður er þó bjartsýn á að verkefninu verði hrint af stað og telur ekki annað koma til greina en að farið verði í kerfisbundnar aðgerðir fyrir krabbamein líkt og hafi verið gert í geðheilbrigðismálum til að mynda.

Tryggja aðgengi allra

Á morgun, 4. febrúar, er Alþjóðakrabbameinsdagurinn. Sá hópur sem stækkar mest og hefur þörf fyrir sérhæfða sjúkrahússþjónustu er fólk með krabbamein.

Krabbameinsfélagið telur mikilvægt að auka enn frekar forvarnir gegn krabbameinum og auðvelda fólki að temja sér lífsstíl sem getur dregið úr líkum á krabbameini. Þá þurfi að hefja skimanir fyrir nýjum meinum þegar fýsilegt er og koma á samfelldu ferli allt frá því að grunur vaknar um krabbamein.

Sporna þurfi við áhrifum ójöfnuðar og tryggja aðgengi að þjónustu óháð búsetu og uppruna. Þróa þurfi sérhæfða þjónustu við þá sem lifa með langvinnum aukaverkunum og síðbúnum fylgikvillum. Jafnframt þurfi að reisa og endurnýja húsnæði, tryggja að nýjasti tækjabúnaður sé til staður og aðgengi að bestu lyfjum. Auk þess að mennta og þjálfa aukinn fjölda hæfs fagfólks til að mæta þessari auknu þjónustuþörf.