Samkvæmt tölfræði barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar var mikil aukning í tilkynningum um heimilisofbeldi og vanrækslu foreldra í marsmánuði.

María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar, lagði fram mælaborð barnaverndar og tölulegar upplýsingar fyrir fyrstu mánuði ársins á fjarfundi barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar í dag.

Í marsmánuði bárust nefndinni 68 tilkynningar vegna 54 barna og voru 31 ný mál í rannsókn hjá nefndinni. Til samanburðar voru 39 tilkynningar í febrúarmánuði og 46 í janúarmánuði.

Var því aukning upp á 42,64 prósent á tilkynningum í Reykjanesbæ á milli mánaða. Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, skóla, ættingjum og heilbrigðisstofnunum.

Fram kom að tilkynningar um heimilisofbeldi hefðu aukist í marsmánuði. Eftir að aðeins bárust tvær tilkynningar um heimilisofbeldi í febrúarmánuði bárust nefndinni ellefu tilkynningar í marsmánuði.

Það voru því fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi í marsmánuði en í fyrstu tveimur mánuðum ársins til samans (9).

Þá kemur fram að aukning hefur verið í barnaverndartilkynningum er varða vanrækslu umsjónar og eftirlits og tilkynningar vegna áfengis og/eða fíkniefnaneyslu foreldra.

Alls bárust nefndinni 25 tilkynningar þess efnis í marsmánuði, tæplega tvöfalt fleiri tilkynningar en í febrúar (13) og tæplega þrefalt færri tilkynningar en í janúar (8).