Fjar­vinna jókst veru­lega vegna CO­VID-19 far­aldursins. Það urðu ekki lengur for­réttindi að vinna heima, heldur nauð­syn. Þótt fleiri geti nú komið saman á vinnu­stað eftir til­slakanir á sam­komu­banni eru enn margir að hluta til í heima- eða fjar­vinnu.

Í febrúar­mánuði greindi frétta­vefurinn Bloom­berg frá því að veirufar­aldurinn neyddi menn til um­fangs­mestu til­raunar til fjar­vinnu sem gerð hefði verið. Ýmsir sér­fræðingar telja þetta ó­venju­lega á­stand kunni að hafa varan­leg á­hrif á vinnu­til­högun. Lík­legt sé að fyrir­tæki lagi fjar­vinnu að starf­semi sinni í meira mæli.

Al­þjóða­fyrir­tækið Gallup segir fjar­vinnu hafa aukist til muna vestan­hafs. Gögn sýni að fjar­vinna auki fram­leiðni og starfs­á­nægju um leið og af­koma fyrir­tækja batni. Síðast en ekki síst laði hún til sín hæfi­leika­fólk.

Banda­ríkja­menn vilja meiri fjar­vinnu

Þrátt fyrir að ó­heppi­legar kring­um­stæður far­aldursins hafi knúið menn til fjar­vinnu, er ljóst að margir starfs­menn kunna vel auknum sveigjan­leika í vinnu­að­stæðum. Til að mynda sparist tími við að koma sér til og frá vinnu á hverjum degi. Að sama skapi óttast sumir vinnu­veit­endur að erfitt verði að neita starfs­fólki um að sinna störfum sínum í fjar­vinnu þegar há­punktur far­aldursns hefur loks gengið yfir.

Sam­kvæmt ný­legri könnun meðal banda­rískra starfs­manna í fullu starfi, sem fyrir­tækið getA­b­stract birti, vildu 43 prósent vinna oftar í fjar­vinnu eftir að far­aldrinum lyki. Á­stæðan liggur í minni ferða­tíma til vinnu­staðar, al­mennri á­nægju með aukinn sveigjan­leika og aukna fram­leiðni. Margir svar­enda eru þó ekki vissir um já­kvæða af­stöðu vinnu­veitanda til fjar­vinnu. Alls sögðust 31 prósent svar­enda ekki reikna með að fyrir­tæki þeirra tækju í fram­tíðinni upp sveigjan­legri stefnu varðandi fjar­vinnu. Alls búast 26 prósent við að vinnu­veit­endur þeirra leyfi aukinn sveigjan­leika, en önnur 20 prósent hafa þegar heyrt um slíka um­ræðu innan fyrir­tækisins.

Fjar­vinna reynist þó ekki galla­laus. Um 27 prósent svar­enda óttast ein­angrun ef þeir halda á­fram að vinna að heiman eftir far­aldurinn. Tuttugu prósent telja tækni á­bóta­vant og önnur 19 prósent óttast að missa tengsl við fyrir­tæki sitt og sam­starfs­menn.

Finnar fremstir í fjar­vinnslu

Könnun Evrópu­stofnunar um bætt lífs­kjör og starfs­skil­yrði (Euro­­found) sem birt var í vikunni, birtir svipaðar sögur frá Evrópu. Sam­kvæmt henni voru finnskir starfs­menn fyrstir til að skipta yfir í fjar­vinnu að heiman, eftir að til­kynnt var um tak­markanir vegna veirufar­aldursins. Um 60 prósent finnskra starfs­manna skiptu þá yfir í fjar­vinnu, saman­borið við 37 prósent meðal­tal Evrópu­sam­bands­ríkja.

Auk Finn­lands skipti meira en helmingur starfs­manna í Dan­mörku, Belgíu, Hollandi og Lúxem­borg yfir í fjar­vinnu.

Um helmingur starfs­manna í Grikk­landi, Ítalíu, Kýpur og Frakk­landi taldi að vinnu­tími þeirra hefði minnkað. Um helmingur finnskra og sænskra starfs­manna taldi að ekki hefðu orðið breytingar á vinnu­tíma þeirra.

Könnun fimm finnskra há­skóla og Finnska vinnu­eftir­litsins leiddi í ljós að 66 prósent að­spurðra voru á­nægð með fjar­vinnu og vísuðu til at­riða á borð við minni truflana og aukinnar ein­beitingar. Hins vegar töldu 74 prósent það að vinna einir væri nei­kvæður hlutur og meira en helmingur svar­enda saknaði fé­lags­legra sam­skipta.

Vorið 2020 unnu að jafnaði 39 prósent ís­lensks launa­fólks á aldrinum 25 til 64 ára aðal­starf sitt ýmist allt eða að hluta í fjar­vinnu heima.
Nordicphotos/ Getty Images

Aukin fjar­vinna á Ís­landi

Hag­stofa Ís­lands birti í síðustu viku saman­tekt um ís­lenskan vinnu­markað á fyrsta árs­fjórðungnum og sagði hann um margt ó­venju­legan. Eitt þeirra at­riða er fjar­vinnan heima fyrir, það er vinna sem tengist aðal­starfi ein­stak­linga en ekki heimilis­störfum eða öðrum störfum heima við.

Sam­kvæmt Hag­stofunni þýðir fjar­vinna að fólk er lengur að störfum. Launa­fólk á aldrinum 25 til 64 ára vann að jafnaði 39,5 klukku­stundir í hverri viku. Þeir sem voru eitt­hvað í fjar­vinnu unnu 41,4 klukku­stundir og þeir sem aldrei voru í fjar­vinnu unnu 38,1 klukku­stund.

Á fyrsta árs­fjórðungi 2020 unnu að jafnaði 39 prósent launa­fólks á aldrinum 25 til 64 ára aðal­starf sitt ýmist allt eða að hluta í fjar­vinnu heima. Þar af var launa­fólk sem vann aðal­starf sitt jafnan í fjar­vinnu heima 5,1 prósent en 33,3 prósent launa­fólks unnu stundum í fjar­vinnu.