Um­tals­verð aukning hefur verið á um­ferð einka­flug­véla hér á landi undan­farnar vikur en um sjö slíkar vélar voru stað­settar á Reykja­víkur­flug­velli þegar ljós­myndara Frétta­blaðsins bar að garði. Starfs­menn tveggja fyrir­tækja sem bjóða upp á þjónustu fyrir slíkar flug­vélar hér á landi stað­festa þetta í sam­tali við blaðið.

Sigurður Sigurðs­son, rekstrar­stjóri flug­af­greiðslu­fé­lagsins Reykja­vík FBO segir gríðar­lega aukningu hafa verið í starf­semi fyrir­tækisins eftir að byrjað var að hleypa bólu­settum ferða­mönnum inn í landið án sótt­kvíar.

„Í rauninni eftir að það var byrjað að hleypa bólu­settum inn með einni skimun, þá hefur þetta bara farið stig­vaxandi,“ segir Sigurður.

Hann tekur þó fram að flug­um­ferðin núna sé að­eins brot af því ár­ferði sem mátti sjá fyrir CO­VID far­aldurinn og á­ætlar að starf­semi fyrir­tækisins nú sé ekki nema um 30 prósent af því sem var árin 2018-2019.

Sigurður segir að um fjöl­breyttan kúnna­hóp sé að ræða frá ýmsum heims­hornum sem komi hingað til lands með einka­flugi. Getur hann ekki nefnt ein­hver á­kveðin lönd fram yfir önnur. Þá segir hann að meiri­hluta þeirra einka­flug­véla sem lendi á Reykja­víkur­flug­velli séu far­þega­lausar.

Fréttablaðið/Ernir

Bjóða upp á lúxus­þjónustu fyrir einka­flug

Á vef­síðu Reykja­vík FBO er fyrir­tækið sagt vera „lúxus flug­af­greiðslu­fé­lag stað­sett á Reykja­víkur­flug­velli sem sér­hæfir sig í VIP þjónustu fyrir einka­flug­vélar.“ Fyrir­tækið rekur litla flug­stöð á Reykja­víkur­flug­velli og býður upp á alla þá þjónustu sem flug­vélar þarfnast á jörðu niðri. Sigurður segir þó að yfir­leitt sé ekki um beina þjónustu við sjálfa far­þegana að ræða.

„Þetta er náttúr­lega bara öll þjónusta við flug­vélina á hlaðinu, í raun og veru allt sem vélina vantar, síðan er það flug­plans­þjónustan og að græja hótel fyrir flug­menn og þess háttar. Það er náttúr­lega yfir­leitt ekki nein bein þjónusta fyrir far­þegana sem slíka, það er allt í gegnum ferða­skrif­stofur.“

Starfs­fólk ACE FBO, flug­af­greiðslu­fé­lags fyrir einkaflug sem er með að­setur bæði á Reykja­víkur­flug­velli og Kefla­víkur­flug­velli, hafa svipaða sögu að segja. Starfs­maður sem blaða­maður ræddi við segir að mikil aukning hafi verið í starf­semi fé­lagsins undan­farið og segir mikla eftir­spurn vera eftir ferðum hingað til lands. Að sögn ACE er einnig tölu­verð fjöl­breytni í þeirra kúnna­hópi og er bæði um að ræða fyrir­tæki og ein­stak­linga sem kjósa að ferðast á þennan máta.