Mikil á­sókn hefur verið í verkja­lyfið Parkódín í apó­tekum eftir að veitt var undan­þága til að selja lyfið í lausa­sölu án lyf­seðils til Co­vid-sjúk­linga. Þetta segir Þór­bergur Egils­son, sviðs­stjóri verslana­sviðs hjá Lyfju.

Fram­vísa þarf vott­orði úr Heilsu­veru um stað­fest Co­vid smit til að fá af­greitt Parkódín og gildir undan­þágurásð­stöfunin einungis dagana 16. mars -18. apríl.

Þórbergur Egilsson, sviðsstjóri verslanasviðs hjá Lyfju.
Mynd/Aðsend

Aðeins örfáir pakkar eftir

Í einu apó­teki borgarinnar fengust þær upp­lýsingar í morgun að sér­lega mikið hefði selst af Parkódíni í gær þá hafi einnig verið mikil sala á lyfinu í dag. Hver sjúk­lingur getur fengið tíu 500mg./10 mg. töflur og í um­ræddu apó­teki voru einungis ör­fáar slíkar pakkningar eftir og þær væru uppseldar hjá umboðinu.

Kvaðst starfsfólk apó­teksins þurfa að grípa til þess ráðs að selja tíu töflu spjöld úr stærri pakkningum af Parkódíni, vegna skortsins á minni pakkningum.

Segir að margt hefði mátt gera betur

Þór­bergur segir margt í kringum undan­þáguna hafa mátt gera betur, lyf­salar hafi fengið til­kynningu um miðjan dag á þriðju­dag en breytingarnar tóku gildi á mið­viku­dag. „Þetta er auð­vitað eitt­hvað sem er verið að gera í fyrsta sinn og við reynum að gera þetta eins vel og við getum. En á­sóknin hefur verið mjög mikil,“ segir hann.