Sig­ríður Kristins­dóttir, sýslu­maðurinn á höfuð­borgar­svæðinu, segir að mikil að­sókn hafi verið til að greiða at­kvæði utan kjör­fundar fyrir komandi al­þingis­kosningar.

„Það er búið að vera meira heldur en í for­seta­kosningunum í fyrra,“ segir hún. „Að­sóknin hefur verið að aukast síðustu ár, og svo er náttúr­lega þetta Co­vid-á­stand. Fólk hefur á­hyggjur af því að lenda í sótt­kví eða ein­angrun ef það smitast fyrir kjör­dag og vilja margir vera búnir að kjósa fyrir kjör­dag.“

Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmda­stjórnar Sósíal­ista­flokksins, kvartaði ný­lega til um­boðs­manns Al­þingis vegna fram­kvæmdar utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðslu hjá sýslu­manninum. Til­efni kvörtunarinnar var til­kynning kjósanda sem ætlaði að kjósa Sósíal­ista­flokkinn en hafði rang­lega verið sagt að flokkurinn væri enn ekki kominn með lista­bók­staf.

„Ég er nú búin að tala við starfs­manninn og það hefur bara orðið ein­hver alls­herjar mis­skilningur sem er erfitt að henda reiður á,“ segir Sig­ríður. „Ég harma að það hafi orðið. Sósíal­ista­flokkurinn er sannar­lega kominn með bók­staf og búið er að aug­lýsa hann.“

Kvörtun Gunnars Smára sneri einnig að aug­lýsingu dóms­mála­ráðu­neytisins sem kjós­endum var sýnd á kjör­staðnum. Í aug­lýsingunni voru fyrst til­greindir lista­bók­stafir þeirra stjórn­mála­sam­taka sem buðu fram til Al­þingis árið 2017 og síðan þær stjórn­mála­hreyfingar sem hefur verið út­hlutað lista­bók­stöfum síðan þá, þar á meðal Sósíal­ista­flokkurinn.

Sig­ríður segir aug­lýsinguna vera í sam­ræmi við kosninga­lög og er ekki sam­mála Gunnari Smára um að verið sé að setja Sósíal­ista í neinn síðri flokk með að­greiningunni. Þá bendir Sig­ríður á að það fyrir­komu­lag að kjósandi skrifi sjálfur lista­bók­staf þess flokks sem hann vill kjósa hafi alltaf tíðkast í utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðslu. „Þegar maður kýs á kjör­dag fær maður kjör­seðil þar sem fram koma yfir öll fram­boðin og setur X við þann flokk sem maður vill kjósa. Kjör­seðill í utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðslu er öðru vísi og hefur verið til margra ára og þeim kjör­seðli hefur ekki verið breytt.“