Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikil aðsókn hafi verið til að greiða atkvæði utan kjörfundar fyrir komandi alþingiskosningar.
„Það er búið að vera meira heldur en í forsetakosningunum í fyrra,“ segir hún. „Aðsóknin hefur verið að aukast síðustu ár, og svo er náttúrlega þetta Covid-ástand. Fólk hefur áhyggjur af því að lenda í sóttkví eða einangrun ef það smitast fyrir kjördag og vilja margir vera búnir að kjósa fyrir kjördag.“
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, kvartaði nýlega til umboðsmanns Alþingis vegna framkvæmdar utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá sýslumanninum. Tilefni kvörtunarinnar var tilkynning kjósanda sem ætlaði að kjósa Sósíalistaflokkinn en hafði ranglega verið sagt að flokkurinn væri enn ekki kominn með listabókstaf.
„Ég er nú búin að tala við starfsmanninn og það hefur bara orðið einhver allsherjar misskilningur sem er erfitt að henda reiður á,“ segir Sigríður. „Ég harma að það hafi orðið. Sósíalistaflokkurinn er sannarlega kominn með bókstaf og búið er að auglýsa hann.“
Kvörtun Gunnars Smára sneri einnig að auglýsingu dómsmálaráðuneytisins sem kjósendum var sýnd á kjörstaðnum. Í auglýsingunni voru fyrst tilgreindir listabókstafir þeirra stjórnmálasamtaka sem buðu fram til Alþingis árið 2017 og síðan þær stjórnmálahreyfingar sem hefur verið úthlutað listabókstöfum síðan þá, þar á meðal Sósíalistaflokkurinn.
Sigríður segir auglýsinguna vera í samræmi við kosningalög og er ekki sammála Gunnari Smára um að verið sé að setja Sósíalista í neinn síðri flokk með aðgreiningunni. Þá bendir Sigríður á að það fyrirkomulag að kjósandi skrifi sjálfur listabókstaf þess flokks sem hann vill kjósa hafi alltaf tíðkast í utankjörfundaratkvæðagreiðslu. „Þegar maður kýs á kjördag fær maður kjörseðil þar sem fram koma yfir öll framboðin og setur X við þann flokk sem maður vill kjósa. Kjörseðill í utankjörfundaratkvæðagreiðslu er öðru vísi og hefur verið til margra ára og þeim kjörseðli hefur ekki verið breytt.“