Viðvörunarstig á Norðurlandi eystra var hækkað úr appelsínugulu í rautt frá því klukkan 16 í gær, svo það var rauð viðvörun í gildi á öllu Norðurlandi. Hún gildir til kl. 12 á Norðurlandi eystra og það er spáð slæmu veðri fyrir austan í dag. Vegna óveðursins var viðbúnaðarstig hækkað af óvissustigi í hættustig almannavarna.

Á Norðurlandi var nokkuð um eignatjón og björgunarsveitir þurftu að sinni nokkur hundruð útköllum í gær. Engin slys virðast hafa orðið á fólki.

Töluvert rafmagnsleysi

Það hafa verið töluverðar truflanir á rafmagni vegna veðursins, fyrst og fremst fyrir norðan. Nú er rafmagnslaust á Sauðárkróki, Hvammstanga og allri Vestur-Húnavatnssýslu og þar hefur verið rafmagnslaus síðan seinnipartinn í gær. Einnig er rafmagnslaust á Siglufirði, Ólafsfirði, í Grýtubakkahreppi.

Í gærkvöldi fór líka rafmagn af í Dalvíkurbyggð, Húsavík og Kísilverinu á Bakka en þar er nú rafmagn.

Flugferðum aflýst og seinkað

Fyrsta flugi frá Reykjavík til Vestmannaeyja kl 7:15 var aflýst, sem og fluginu til baka, kl. 8:25. Önnur innanlandsflug eru á áætlun, en gert er ráð fyrir röskunum vegna veðurs og fólk beðið um að fylgjast vel með breytingum.

Þremur millilandaflugum var aflýst, til Kaupmannahafnar í nótt og til Frankfurt og Helsinki nú með morgninum. Nokkrum öðrum flugum til Evrópu hefur verið frestað.

Tré rifnuðu upp með rótum sunnanlands

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi fékk hún yfir 150 beiðnir um aðstoð í gær. Átta tré brotnuðu eða rifnuðu upp með rótum á Selfossi, hjólhýsi fauk og lenti á húsi, þakplötur fuku og aðstoða þurfti ferðamenn eftir að það drapst á bílunum þeirra.

Undir Ingólfsfjalli fóru vindhviður upp í 50 metra á sekúndu. Þar fuku tveir bílar út af veginum og einn bíll missti báðar rúðuþurrkurnar í einni vindhviðu.

Rauði krossinn hýsti 12 ferðamenn á fjöldahjálparstöð á Borg í Grímsnesi.

Mikill fjöldi útkalla í Vestmannaeyjum

Á milli fimm í gær og miðnættis fór Björgunarsveit Vestmannaeyja í rúmlega 180 verkefni. Þar voru kofar og þakplötur að fjúka, rúður að gefa sig og hjólabrettapallur við Hamarskóla fauk. Einnig urðu miklar skemmdir á norðurhlið Fiskimjölsverksmiðjunnar.

Rólegt á höfuðborgarsvæðinu

Nokkuð var um útköll vegna veðursins hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en þau voru ekki alvarleg og annars var rólegt hjá lögreglu. Slökkviliðið var kallað til aðstoðar þegar tré losnaði upp með rótum á Sólvallargötu, en annars var lítið um útköll.

Ekkert skólahald á Norðurlandi eystra fyrir hádegi

Viðbragðsaðilar á Norðurlandi eystra hafa unnið hörðum höndum í öllu umdæminu. Allir vegir eru meira og minna lokaðir og rafmagn hefur verið óstöðugt.

Á Ólafsfirði fuku þakplötur af tveimur húsum og það þurfti að huga að rafmagnslínum sem voru að taka á sig svo mikinn ís að þær voru farnar að sligast undan þunganum og í sumum tilvikum að síga lágt nálægt vegum.

Í flestum skólum í umdæminu verður ekki skólahald, að minnsta kosti ekki fyrir hádegi. Foreldrar og forráðamenn ættu að fylgjast með tilkynningum frá sveitarfélögum og skólum.

Vont og versnar á Suðausturlandi

Það er farið að bæta verulega í vind í Öræfum og suður af Vatnajökli, en hviður eru nálægt 40 m/s. Þar verður komið mjög vont veður upp úr sjö, segir Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur, í samtali við RÚV.

Það er líka farið að hvessa á Austurlandi og Austfjörðum og um níu á óveðrið að vera farið að segja til sín með mikill snjókomu. Samkvæmt Þorsteini gengur veðrið hægt niður austanlands eftir hádegi, þó þar verði áfram hríð. Það verður hins vegar rok fram á kvöld á Suðausturlandi.