„Inflúensan er ekki komin svo ég viti til,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, spurður hvort árleg inflúensa sé ástæða veikinda sem hrjá um þessar mundir fjölda landsmanna.
„Hins vegar er mikið um sýkingar í öndunarfærum en það eru annars konar veirusýkingar,“ segir Óskar. Hann segir þær sýkingar sem nú séu tíðar hér á landi svokallaðar haustkvefpestir sem einkennist af kvefi, hósta og slappleika. Besta ráðið við þeim sé að taka því rólega.
„Þegar fólk svo fær þessar ekta inflúensur koma þær hratt og einkennast af háum hita, beinverkjum og höfuðverk. Síðast þegar ég vissi var ekkert skráð tilfelli inflúensu á Landspítalanum,“ segir Óskar. Hann segir haustkvefið einkar skætt í ár og ástæðuna þá að þjóðin hafi sloppið við pestina í fyrra.
Hefnist fyrir pestarlaust ár
„Það er þannig að ef þjóð er lítið útsett eitt árið þá „hefnist“ henni fyrir það hið næsta,“ segir Óskar og hvetur fólk til að láta bólusetja sig gegn árlegri inflúensu. „Það getur sparað fólki ýmislegt að sleppa við inflúensuna sem getur valdið því að fólks sé mikið lasið með háan í hita jafnvel í heila viku.“
Þá hvetur Óskar fólk, sem smitast hefur af umræddum veirusýkingum, til að leita ekki á heilsugæslu nema um alvarleg veikindi sé að ræða. Þar sé mikið álag vegna Covid. „Við bendum fólki á að nota skynsemina, sérstaklega ef einkennin eru léttvæg og lítilfjörleg.“