Frá því síðdegis í gær hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekið tíu ökumenn fyrir ölvunar- og fíkniefnakstur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, en þar segir að þessi fjöldi tilfella teljist heldur mikill á virkum dögum.

Fram kemur að einstaklingarnir sem voru stöðvaðir af lögreglu hafi ýmist verið stöðvaðir við eftirlit lögreglu eða eftir ábendingar frá borgurum.

Ökumennirnir voru teknir víðs vegar í umdæminu, en fram kemur að um var að ræða sjö karla og þrjár konur á aldrinum 17 til 59 ára. Þá hafi þrír ökumannanna þegar verið sviptir ökuleyfi.