Afar mikið er af frjókornum í lofti norðanlands og verður áfram næstu daga. Sunnanlands hefur dregið úr frjókornum eftir mikið magn í maí. Þetta kemur fram í frjókornamælingu Náttúrufræðistofnunar, en talið er á Akureyri og í Garðabæ.

„Núna er birkitímabilið á fullu. Birkið klárast á næstu tveimur til þremur vikum og þá á grasið að taka við út ágúst. Grasið gæti líka hafist um þetta leyti,“ segir Aníta Ósk Áskelsdóttir, líffræðingur hjá stofnuninni á Akureyri.

„Veðurskilyrðin eru hagstæð og það hefur lítið rignt hérna,“ segir hún.

Aðeins er birt frjókornaspá fyrir nokkra daga í senn, byggð á frjókornamagni fyrri daga og veðurspá. Aníta segir ekki hægt að spá um hvernig allt sumarið verði.

Í fyrra var frjókornamagnið í Garðabæ lítið, aðeins tæplega 60 prósent af meðaltali síðustu 10 ára. Frjómagnið á Akureyri var aftur á móti 45 prósentum hærra en meðaltalið þar. Stærstur hluti frjókorna er gras, en þar á eftir kemur birki, súru- og asparfrjó. Einnig hefur það færst í aukana að frjókorn berist hingað yfir hafið frá Evrópu.

Til að mynda frjó ambrósíunnar sem geta valdið miklum ofnæmisviðbrögðum.

Bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýna að magn frjókorna er að aukast og tímabilið sé að lengjast. Hér á landi er byrjað að telja frjókorn í apríl í stað maí áður. Rannsókn Utah-háskóla frá árinu 2021 sýnir að frjókornatímabilið í Bandaríkjunum hefst 20 dögum fyrr en það gerði árið 1990 og magn korna er 21 prósenti meira.

Helsta ástæðan er hækkandi hitastig samfara loftslagsbreytingum. Ofan á þetta bætist að gróðurhúsalofttegundirnar auka á einkenni þeirra sem kljást við öndunarfærasjúkdóma, svo sem astma.

„Byrði lengra ofnæmistímabils og aukins frjókornamagns leggst þyngst á viðkvæma hópa, þar á meðal lágtekjufólk og minnihlutahópa,“ segir í úrdrætti rannsóknarinnar í tímaritinu Climate Reports