Veðrið verður nokkuð milt og hlut­laust næstu tvo daga; dá­lítið skýjað yfir öllu landinu og lítill vindur. Ætli það verði þó ekki að heita lognið á undan storminum því á mið­viku­daginn lendir lægð á sunnan­verðu landinu með miklum rigningum og dá­litlu hvass­viðri fram á og lík­lega yfir næstu helgi.

Bjart norðaustanlands um helgina

„Þetta er mjög lík­leg niður­staða,“ segir vakt­hafandi veður­fræðingur Veður­stofu Ís­lands í sam­tali við Frétta­blaðið. Öllum spám sem komnar eru fyrir næstu viku, bæði af megin­landi Evrópu og frá Ameríku, ber saman um að lægð lendi á Ís­landi næsta mið­viku­dag. „Ég ætla samt að fara var­lega í það að spá ein­hverju slag­veðri eins og ein­hverjir voru búnir að gera,“ segir veður­fræðingurinn.

Staðaspá Veður­stofunnar klukkan 18 næsta miðvikudagskvöld.
Veðurstofa Íslands

„Það verða ein­hverjar skúrir á mánu­dag og þriðju­dag. Svo á mið­viku­dag kemur upp að landinu lægð og verður fyrir vestan land. Það má búast við því að það verði bara sunnan­átt og rigning á öllu sunnan- og vestan­verðu landinu lík­lega fram á eða yfir helgi,“ heldur hann á­fram.

Rigningin verður mest frá mið­viku­degi til föstu­dags. Þá verður hið versta yfir­staðið þó enn megi búast við nokkurri rigningu á sunnan- og vestan­verðu landinu um helgina.

Sam­kvæmt staðaspá Veður­stofunnar verður komin dá­lítil sól fyrir norð­austan á föstu­dag.
Veðurstofa Íslands

Næsta helgi verður því til­valin helgi til að koma sér af höfuð­borgar­svæðinu og sunn­vestan­verðum lands­hlutanum og kíkja á Norð­austur­landið þar sem veðrið verður með á­gætum næstu helgi. „Í svona hásunnan­átt þá fær Norður­landið ekki svona mikla úr­komu. Það fær dá­litla rigningu þegar lægðin er að klára að fara yfir landið á fimmtu­dag og byrjun föstu­dags og svo geta auð­vitað alltaf verið ein­hverjar skúrir sem fara yfir þann lands­hluta,“ segir veður­fræðingurinn.

„En jú, jú, það sést alveg örugg­lega eitt­hvað til sólar þar næstu helgi – sér­stak­lega á Norð­austur­landi og jafn­vel víðar. Það verður alla­vega mun bjartara þar þó það verði ekki glampandi sól alla helgina og alls ekki þessi sam­fellda rigning sem maður sér að mun liggja alveg frá Höfn og vestur að Reykja­vík og þaðan alveg norður upp undir Vest­firði.“