Að minnsta kosti 208 hafa fallið í óeirðum sem brutust út í Íran um miðjan síðasta mánuð. Tala fallinna er líklega mun hærri að því er kemur fram á fréttavef samtakanna Amnesty International. Mannfall er einna hæst í borginni Shahriar.

„Þessi ógnvekjandi fjöldi dauðsfalla er vísbending um að öryggissveitir Írans hafi farið með æðisgengnum drápum þar sem að minnsta kosti 208 manns létust á innan við viku. Þetta átakanlega mannfall sýnir skammarlega lítilsvirðingu íranskra yfirvalda á mannslífum,“ sagði Philip Luther, hjá Amnesty International.

Óeirðirnar brutust út eftir að ráðamenn tilkynntu um miklar verðhækkanir á eldsneyti. Mótmælum var mætt með lokun á nánast öllu netsambandi í landinu. Átök breiddust út víða og reitt fólk stormaði út á götur og krafðist afsagnar klerkastjórnarinnar.

Dagblaðið New York Times segir að öryggissveitir stjórnvalda hafi víða skotið á óvopnaða mótmælendur, sem flestir voru atvinnulausir eða tekjulágir ungir karlmenn.

Abdolreza Rahmani Fazli innanríkisráðherra landsins viðurkennir í ríkisfjölmiðlum mikið umfang mótmælanna. Hann segir að mótmælin nái til 29 af 31 héraði Íran og að ráðist hafi verið gegn 50 herstöðvum. Hann segir eignarskemmdir víða.

Blaðið segir þetta vera mannskæðustu átök frá írönsku byltingunni árið 1978. Talið er að minnsta kosti 2.000 manns séu særðir og að 7.000 séu í haldi yfirvalda.