Virkjað hefur verið samkomulag milli ríkisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem felur í sér að björgunarsveitir fái greitt fyrir aðstoð sína við gosstöðvarnar. Í tölvupósti sem var sendur á allar stjórnir björgunarsveita í gær, þar sem björgunarsveitir eru hvattar til að skrá sig í gæsluverkefnið, kemur fram að gæslan hefur verið heimamönnum erfið.
Frá því að gosið hófst fyrir viku hefur mikið mætt á björgunarsveitarfólki við að aðstoða þar, einkum hvað varðar að tryggja að svæðið sé öruggt og að enginn þeirra þúsunda sem lagt hafa leið sína þangað verði fyrir slysum af völdum gossins.
„Eins og öllum er kunnugt þá sitja félagar okkar á Suðurnesjum uppi með eitt lítið sætt túristagos. Mikið mæðir á heimamönnum og hefur verið kallað eftir björgum víða að. Nú er komið að því að leggja drögin að úthaldi eitthvað fram í tímann og þá virkjum við „sleggjuna,““ segir í tölvupóstinum.
Guðbrandur Örn Arnarson, sem starfar í aðgerðarstjórn Landsbjargar sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það væri brjálað að gera hjá Landsbjörg og björgunarsveitum vegna gossins.
Greitt verður fyrir gæsluverkefnin samkvæmt samningi um hjálparlið almannavarna. Ekki er enn búið að uppreikna tímagjald og ganga endanlega frá samningi þannig að tölurnar eiga eftir að hækka um einhverjar krónur. Samkvæmt tölvupóstinum á stjórnir björgunarsveita er tímagjaldið 8.200 krónur á einstakling, Sólarhringsgjald fyrir bifreið rúmlega 40.000 kr.
Almannavarnir greiða fyrir gasgrímur og verið er að vinna í magnkaupum.