Grunur leikur á að jarðhitavatnsleki sé að berast í Múlakvísl. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Rafleiðni er há og er vatnsmagn meira en venja er.

„Það er há rafleiðni, það þýðir að það sé mikið jarðhitavatn í ánni. Þetta gæti verið leki af jarðhitavatni en við erum svolítið stressuð því við vitum að það er mikið vatn í sigkötlunum,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Fylgjast vel með

Hlaup er ekki hafið en Veðurstofan er með mikla vöktun á svæðinu. Múlakvísl er á söndum og er því erfitt að fylgjast með hækkandi vatnshæð vegna þess að áin grefur undan sér í stað þess að hækka eins og aðrar ár. Búið er að koma fyrir mælum í Mýrdalsjökli til þess að bæta viðbragðstíma fyrir næsta hlaup í Múlakvísl en miðað við árstíma er vatnsmagn meira en venja er.

„Við fylgjumst vel með og bíðum rólega. Við fylgjumst með siginu í Katli 10 þar sem GPS tækinu var komið fyrir í júní, við fylgjumst með rafleiðni og við erum með tvær vefmyndavélar, jarðskjálftamæla sem fylgjast með óróa, gasmæla og við erum með flóðaviðvörunarmæli,“ segir Sigurdís.

Ótalmargir mælar og atburðarásin skýr

Ef GPS tækið á Mýrdalsjökli byrjar að lækka, þá fær Veðurstofan merki um að vatnið í katlinum sé að tæmast. Vatnið rennur þá út í á undir Kötlujökul. Því næst kemur það undan skriðjöklinum og út í ánna og þá fær Veðurstofan fyrstu flóðaviðvörunina frá Léreftshöfði. Meðan allt þetta gerist þá fara jarðskjálftamælar að nema þennan óróa.

„Ef þetta virkar allt eins og er óskandi, þá myndum við fyrst sjá sigið á GSP mælinum, því næst óróa á jarðskjálftamælunum og að lokum flóðviðvörunum frá Léreftshöfði,“ segir Sigurdís.

„Þá eru 40 mínútur, kannski hálftími, þar til þetta er komið niður að brú. Það er þó mismunandi eftir vatnsmagni,“ segir Sigurdís og lýsir fyrir blaðamanni atburðarásinni sem myndi þá fara af stað.

Fyrst væri haft samband við sérfræðinga innanhúss og utanhúss og staðfest að Jökulhlaup sé hafið. Því næst yrði viðbragðsáætlun virkjuð og haft samband við almannavarnir og fréttatilkynning send út.

Samkvæmt mælingum Veðurstofunnar er búist við að þetta verði stærsta jökulhlaup í Múlakvísl í átta ár. Talsverður kraftur var í hlaupinu í júlí árið 2011 en þá rofnaði hringvegurinn þegar jökulhlaupið greip með sér brúna yfir Múlakvísl. Hlaupið var mikið áfall fyrir ferðaiðnaðinn.