Stórt stykki vantar í suðausturhorn gígsins í eldgosinu í Meradölum og er talið að mikið hrun hafi átt sér stað síðasta sólarhringinn.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands en um er að ræða aðgerðahóp með áherslu á jarðfræði en innan hópsins eru fjöldamargir jarðfræðingar.

Hópurinn bendir á að á vefmyndavélum megi sjá að gígurinn hafi tekið miklum breytingum undanfarinn sólarhring. Líklegt sé því að hraunáin, sem streymir úr gígnum, hafi fundið sér nýja leið en það verði þó að staðfesta betur þegar rofar til á gosstöðvunum.

Það eru eflaust margir sem vilja leggja leið sína að eldstöðvunum um leið og þær opna aftur. Metfjöldi fólks hefur heimsótt þær undanfarna daga.
Mynd/AntonBrink

Lokað verður fyrir aðgang að gosstöðvunum í kvöld og fram í fyrramálið vegna slæms veðurs en lítið skyggni er nú við gosstöðvarnar og lélegt skyggni. Veðurútlit fyrir svæðið sé ekki gott á næstunni en viðbragðsaðilar munu funda um stöðu mála í fyrramálið.