Stóri jarð­skjálftinn á Reykja­nesi hefur greinilega valdið miklu grjót­falli við eld­fjallið Trölla­dyngju á Reykja­nes­skaga. Eld­fjallið er nyrst í Núps­hlíðar­hálsi, þar sem stóri skjálftinn átti sér stað.

Sveinn Rúnar Einars­son, sem er betur þekktur fyrir störf sín í nætur­lífinu, var í göngu­ferð á Reykja­nesi þegar hann sá grjót­fallið.

„Þetta er bara til­viljun. Við ætluðum að leggja af stað klukku­tíma fyrr og fara þarna í gegnum Sogið en þegar við komum að voru steinar búnir að velta sér við veginn,“ segir Sveinn Rúnar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hefði getað verið lífshættulegt

„Hefðum við lagt af stað klukku­tíma fyrr þá hefðum við bara lent í tölu­verðum vand­ræðum og mögu­lega í lífs­hættu­legu at­viki,“ segir Sveinn Rúnar.

„Við vorum lagðir af stað þegar við heyrðum af skjálftanum en á­kváðum samt að halda á­fram til að kíkja á þetta. Auð­vitað fórum við að öllu með gát en við snérum við hjá Soginu og á­kváðum að kíkja á Trölla­dyngju,“ segir Sveinn Runar og bætir við að göngu­hópurinn hafi farið afar var­lega.

Trölladyngja fann vel fyrir skjálftanum.
Ljósmynd/Sveinn Rúnar Einarsson

„Þegar klukkan var tvö og við vorum lagðir af stað þá heyrðum við af skjálftanum og á­kváðum að kíkja. Þegar við vorum komnir að og sáum þessa steina á­kváðum við að labba til­baka,“ segir Sveinn og bætir við að þetta ágæt áminng um að maður þarf að fara varlega á þessum svæðum.

„Þetta er á­gætt á­minning á að þegar maður ætlar í göngu­túra á þessum skjálfta­svæðum að fara að öllu með gát. Ef það hefði verið fólk á göngu­túr þarna þegar skjálftinn var hefði það verið lífs­hættu­legar að­stæður,“ segir Sveinn Rúnar að lokum.