Stór fylla hrundi undan gömlu brúnni ofan í Sultartangaskurð um hálf tvö leitið í gær.

Rafmagnsframleiðsla liggur að miklu leyti niður í Sult­ar­tanga­virkj­un í Þjórsá eftir atvikið en verktakar vinna allan sólarhringinn við að fjarlægja grjótið úr skurðinum.

Fjallað var um atvikið í kvöldfréttum RÚV. Þar kom fram að miklar framkvæmdir standa yfir á svæðinu.

Nýbúið er að byggja nýja brú og í skurðinum sjálfum er unnið að því að búa til syllur til að koma í veg fyrir síendurtekið berghrun ofan í hann.

Önnur vél Sultartangavirkjunar gengur ekki og hin er á hálfum hraða eftir að vatn gekk inn í virkjunina þegar skriðan féll í afrennslisskurð fyrir neðan hana.

Vertakar voru ekki á vinnusvæðinu þegar hrunið varð en þeir höfðu lokið störfum aðeins einum og hálfum tíma áður.

Gunnar Þór Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun segir í kvöldfréttum að reynt verði að koma stöðinni aftur í gang annað kvöld og unnið verði fram eftir öllum stundum þangað til. Hann áætlar að um fimm til sex þúsund rúmmetrar af grjóti hafi fallið ofan í skurðinn.

Gömlu brúnni var lokað þegar hrunið áttu sér stað en hægt var að opna fyrir umferð um nýju brúnna. Gamla brúin verður svo fjarlægð á næstu misserum, segir Gunnar Þór.