Listamaðurinn Margeir Dire, sem lést þann 30. mars síðastliðinn, skilur eftir sig mörg listaverk og marga vini. Aðstandendur eru harmi slegnir en eru hrærðir yfir miklum stuðningi og hlýju frá þeim mörgu vinum sem Margeir eignaðist á lífsleiðinni.

Hjartnæm stund í Mauerpark

„Það var mikið grátið en manni hlýnar um hjartarætur að sjá hvað hann var að vinna með mörgum.“

Margeir lést í Berlín og héldu systkini hans út til að sækja hann og binda um lausa hnúta. Vinir Margeirs stóðu fyrir hjartnæmri minningarstund í almenningsgarðinum Mauerpark. Garðurinn er ein þekktasta listamannadeigla heims og prýða nokkrar andlitsmyndir af Margeiri Berlínamúrinn fræga í garðinum. „Þegar við komum út voru graffíti-listamenn búnir að taka sig saman og gerðu vegg honum til heiðurs. Það var mikið grátið en manni hlýnar um hjartarætur að sjá hvað hann var að vinna með mörgum,“ segir Stefán Sigurðsson, elsti bróðir Margeirs, í samtali við Fréttablaðið. „Hann var ótrúlega óeigingjarn á sín verk.“

„Þegar við komum út voru graffíti-listamenn búnir að taka sig saman og gerðu vegg honum til heiðurs.“
Mynd/ Aðsend

Stefán segir að móttökurnar í Berlín hafi veitt fjölskyldu Margeirs mikinn styrk á erfiðum tímum. „Það var mikil stemning og mjög falleg stund. Það voru líka bara mikið af vinum hans voru að fylgja honum sem komu. Þau gáfu okkur ótrúlega mikinn styrk á þessum tímum,“ segir Stefán.

Safna saman verkunum fyrir börnin

Fjölskylda Margeirs stendur fyrir söfnun og skráningu á þeim listaverkum sem Margeir skyldi eftir sig. „Við erum að reyna safna verkunum hans saman fyrir börnin hans. Hann var ótrúlega afkastasamur og fór víða um,“ segir Stefán. „Við erum að reyna skrásetja þessi verk og koma þeim á góðan stað, og endurheimta þau verk sem eru í geymslu. Það verður svo í höndum barnanna hans að ákveða hvað verður um þau,“ segir Stefán.

Systkini Margeirs. F.h. Stefán, Antonía og Friðfinnur.
Mynd/ Aðsend

Kostnaður við að koma Margeiri heim er mikill. Til að hlaupa undir bagga hefur frænka Margeirs hafið fjársöfnun. „Það er mjög dýrt að koma honum heim. Það þarf að borga fyrir útfararþjónustu erlendis og fljúga honum heim og það er allskonar vesen í kringum þetta,“ segir Stefán. Hann kann borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins miklar þakkir fyrir. „Maður er ótrúlega þakklátur fyrir þessa þjónustu. Í þeim er mikil hjálp og þetta er ótrúlega gott fagfólk,“ segir Stefán.

„Yndislegur og vinamargur maður“

Gróa Ólöf Þorgeirsdóttir, frænka Margeirs sem stendur fyrir fjársöfnuninni, segir að stuðningurinn sé mikill. Hún segir að Margeir hafi verið yndislegur og vinmargur maður. „Söfnunin hefur gengið rosalega vel. Þetta er auðvitað mikið áfall og allir í sjokki, og að þurfa huga að þessum útgjöldum er rosalega erfitt,“ segir Gróa.

Fjölbreyttar og fallegar myndir af Margeiri prýða nú Berlínarmúrinn í Mauerpark.
Mynd/ Aðsend

Gróa segist ekki hafa vitað við hverju ætti að búast þegar söfnunin hófst, en að viðbrögðin hafi verið rosalega góð. „Það eru fullt af vinum og ástvinum sem eru miður sín og vilja hjálpa. Það er lítið sem maður getur gert þannig þetta er svona leið sem maður getur aðeins reynt að létta undir þeim,“ segir hún.

„Það eru fullt af vinum og ástvinum sem eru miður sín og vilja hjálpa. Það er lítið sem maður getur gert þannig þetta er svona leið sem maður getur aðeins reynt að létta undir þeim.“

Útför Margeirs fer fram á miðvikudaginn næstkomandi í Kópavogskirkju. Minningarathöfn og jarðsetning duftkers verður haldin í Akureyrarkirkju þann 7. maí klukkan 13.30. Listamenn á Akureyri hafa tekið höndum saman og ætla halda listaverkasölu til stuðnings minningarathöfninni og fjölskyldu Margeirs.

Margir hafa deilt minningum sínum um Margeir og listaverk hans á minningarsíðu hans á Facebook. Þar er jafnframt hægt að koma áfram upplýsingum um verk Margeirs sem eru í umferð. Hér er hægt að sjá minningarsíðuna. Þau sem vilja styrkja söfnunina er bent á styrktarreikning (rnr. 511-14-557, kt.260681-2069).